Ljóðstafur Jóns úr Vör var veittur í þrettánda sinn í Salnum í Kópavogi í gær, þann 21. janúar 2013. Anton Helgi Jónsson hlaut stafinn að þessu sinni fyrir ljóðið „Horfurnar um miðja vikuna“, en hann fær nú fyrstur skálda verðlaunin í annað sinn. Hann var einnig handhafi Ljóðstafsins árið 2009. Anton Helgi hefur gefið út sjö ljóðabækur og eina skáldsögu. Hann á fjörutíu ára útgáfuafmæli á þessu ári.
Um þrjú hundruð ljóð bárust í keppnina.
Adolf Friðriksson fornleifafræðingur varð í öðru sæti með ljóð sitt „Háaloft“ og Uggi Jónsson, skáld og þýðandi, í því þriðja með ljóðið „Mávarnir“.
Sex önnur ljóð fengu viðurkenningu. Þau eru „Þriðjudagur í nóvember“ eftir Solveigu Thoroddsen, „Þúfnavalsljóð“ eftir Pálma R. Pétursson, „Föstudagur á Miklubraut“, sem einnig er eftir Anton Helga, „Rondo“ eftir Guðmund Brynjólfsson, ljóð Margrétar Þ. Jóelsdóttur, „Stóðið“, og loks „Sólför“ eftir Kristinn Árnason.
Í rökstuðningi dómnefndar um sigurljóðið segir meðal annars að það hafi vakið athygli allra dómnefndarmanna við fyrsta lestur. „Ljóðið er ort af snerpu og þrótti af skáldi sem hefur nútímalegt ljóðmál fullkomlega á valdi sínu.“
Í dómnefnd voru Sindri Freysson, skáld og rithöfundur, Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur, og Gunnþórunn Guðmundsdóttir , bókmenntafræðingur og dósent við Háskóla Íslands.
Rökstuðningur dómnefndar
„Ljóðið sem hreppti fyrsta sætið ber titilinn „Horfurnar um miðja vikuna“ , ljóð sem vakti athygli allra dómnefndarmanna við fyrsta lestur og vinnur á við nánari kynni. Ljóðið er ort af snerpu og þrótti af skáldi sem hefur nútímalegt ljóðmál fullkomlega á valdi sínu.
Í ljóðinu er gefin í skyn hliðstæða með mannsævinni annars vegar og dögum vikunnar hins vegar. Á miðvikudegi horfir miðaldra ljóðmælandi til framtíðar og þótt hann hafi ekki enn fundið sig til fulls er hann fullur bjartsýni og undirstrikar þá glaðbeittu lífsgleði sem ljóðið miðlar með því að sækja lokamyndina til unglingsáranna þar sem bílskúrsband „djöflast frameftir“ í höfði hans.
Bygging ljóðsins er markviss og þótt ljóðmálið sé einfalt byggir það á snjallri notkun endurtekninga og óreglulegrar stuðlasetningar sem magna upp hrynjandi í ljóðinu, tónlist með undirliggjandi rokktakti sem kallast á við myndina í lokaerindinu.“
Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs
Á sama tíma voru veitt verðlaun í ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs og hreppti Patrik Snær Eiríksson, nemandi í Hörðuvallaskóla, fyrsta sætið fyrir ljóð sitt „Næturhimininn“.
Diellza Morina, Álfhólsskóla varð í öðru sæti með ljóðið „Ljóð“ og Íris Ólafsdóttir úr Hörðuvallaskóla hlaut þriðju verðlaun. Hennar ljóð heitir „Reykjavík“ og fer það hér á eftir.
Reykjavík
Reykjavík er eins og lítil geymsla.
Fólksbílar eru pínulitlar mýs
en jepparnir eru ljótar rottur.
Húsin eru lítil og falleg dúkkuhús.
Tjörnin er vatnið sem Anna hellti
niður í gær.
Harpan er glerbrotahrúga
af brotnum glösum og vösum.