Æviágrip
Árni Þórarinsson fæddist í Reykjavík þann fyrsta ágúst 1950. Hann varð stúdent frá M.H. 1970 og lauk B.A.-prófi í samanburðarbókmenntum frá University of East Anglia í Norwich á Englandi 1973.
Árni hefur starfað sem blaða- og fjölmiðlamaður um langt árabil. Hann var blaðaðmaður á Morgunblaðinu sumrin 1971 og 1972 og í fullu starfi við sama blað 1973-1976. Hann var umsjónarmaður helgarblaðs Vísis og kvikmyndagargrýnandi þar frá 1976-1979 og ritstjóri Helgarpóstsins og kvikmyndagagnrýnandi frá 1979-1984. Frá 1984-1986 gagnrýndi Árni kvikmyndir fyrir Morgunblaðið og var jafnframt lausamaður í dagskrárgerð fyrir útvarp og sjónvarp. Hann var ritstjóri tímaritsins Mannlífs 1986-1988 og hélt einnig áfram að vinna að dagskrárgerð fyrir ljósvakamiðla allt til 1999. Árni var blaðamaður á Morgunblaðinu um árabil, með áherslu á skrif um kvikmyndir, ýmis viðtöl og greinar.
Árni var í undirbúningsnefnd Kvikmyndahátíðar í Reykjavík 1989 og 1991 og hann hefur einnig átt sæti í ýmsum dómnefndum á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Hann var í úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs Íslands 1992 og 1993.
Fyrsta skáldsaga Árna, spennusagan Nóttin hefur þúsund augu, kom út árið 1998 og síðan hefur hann sent frá sér fleiri bækur um blaðamanninn Einar, auk annarra sagna. Hann á einn kafla í bókinni Leyndardómar Reykjavíkur 2000, sem nokkrir glæpasagnahöfundar skrifuðu í sameiningu og árið 2002 kom út bókin Í upphafi var morðið sem Árni skrifaði ásamt Páli Kristni Pálssyni. Þeir hafa einnig unnið saman tvö sjónvarpshandrit, Dagurinn í gær, sem sýnt var í RÚV 1999 í leikstjórn Hilmars Oddssonar og 20/20, sem Óskar Jónasson leikstýrði fyrir RÚV 2002. Síðarnefnda myndin var tilnefnd til fjögurra Edduverðlauna, meðal annars fyrir besta handrit. Þá hefur Árni sent frá sér viðtalsbók og þýðingu á barnabók eftir Evert Hartman, en fyrir þá þýðingu hlaut hann Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 1984. Spennusögur Árna hafa komið út í þýðingum, meðal annars á Norðurlöndunum, í Þýskalandi og Frakklandi.
Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.
Frá höfundi
Frá mínum bæjardyrum
Mig langar til að nota þetta tækifæri til að segja ykkur hvernig sögurnar um Einar blaðamann voru hugsaðar frá mínum bæjardyrum.
Hugmyndin fæddist sumarið 1994. Ég sat útá sólpalli við kofa í sænska skerjagarðinum og las bók eftir einn af eftirlætishöfundum mínum í krimmahefðinni, Bandaríkjamanninn Ross Macdonald, sem á sinni tíð var verðugur lærisveinn Raymonds Chandler. Svo niðursokkinn var ég í lesturinn að ég uggði ekki að mér. Þungbúin ský hafði dregið fyrir sólu og fyrr en varði skall á steypiregn. Ég og bókin urðum gegndrepa á nokkrum sekúndum og hrökkluðumst inn í hús. Þar sat ég um stund og reyndi að þerra okkur bæði. Á meðan bókin þornaði fór ég að velta fyrir mér möguleikum á sviðsetningu sakamálasögu í íslensku umhverfi.
Þeir Dashiell Hammett og Raymond Chandler voru meistarar þeirrar krimmahefðar sem kölluð hefur verið harðsoðin. Chandler er þó í eðli sínu rómantískari. Hetja hans, einkaspæjarinn Philip Marlowe, er mannlegri og mýkri en til dæmis Sam Spade Hammetts. Ross Macdonald og hetja hans, einkaspæjarinn Lew Archer, eru trúlega þarna mitt á milli.
Þar sem ég velti vöngum yfir þessu á meðan regnið buldi á kofaþakinu vaknaði sú hugmynd að taka harðsoðnu hetjuna til íslensks nútíma, ekki með húð og hári frá fyrrnefndum höfuðsnillingum, heldur með vissum erkitýpískum einkennum, eins og einsemdinni, vínhneigðinni, réttlætiskenndinni og töffaraskapnum. En mig langaði til að láta hana þroskast fyrir augum lesenda og sjálfs mín. Einar blaðamaður er annar í upphafi þeirrar sögu, sem fjórum árum síðar birtist undir nafninu Nóttin hefur þúsund augu, en í lok hennar. Hann er enn annar í næstu bók, Hvítu kanínunni. Og enn annar í þeirri þriðju, Bláu tungli. Þótt ákveðin persónueinkenni haldist taka önnur breytingum. Þessar sögur, sem gerast í hugarheimi Einars gegnum fyrstu persónu frásögn nútíðar, eru fyrir mér þroskasaga harðsoðnu “hetjunnar” sem undir skurninni reynist linsoðin. Það afhjúpast eftir því sem hann kynnist sjálfum sér með því að ráða í gátur þeirra persóna sem á vegi hans verða. Í Hvítu kanínunni segir Einar: “Ég er að hugsa um gamaldags einkaspæjara. Í upphafi rannsóknar er hann einn, svo fer hann að rannsaka líf annars fólks í leit að glæp og þegar þeirri rannsókn lýkur er hann aftur orðinn einn.” Og stuttu síðar: “Kannski rannsökuðu gamaldags einkaspæjarar aldrei líf annars fólks. Kannski voru þeir alltaf að rannsaka sjálfa sig.”
Frá mínum bæjardyrum er þetta mikilvægur kjarni í sögunum um Einar blaðamann. Hann er afkvæmi harðsoðnu hetjunnar en í rauninni ættleri. Hann getur ekki verið eins töff og hann reynir að vera. Sá varnarmúr dugir honum ekki þegar á reynir. Hann er breyskari og um leið opnari en svo. Fordómarnir flagna af honum í sagnanna rás – gagnvart konum, kynþáttum, samkynhneigðum, öllum þeim manngerðum, stöðlum og manngildum sem hann mætir og tekin eru að vissu marki í arf frá fyrirrennurunum úr harðsoðnu krimmunum, en ekki síður frá þeim hugmyndum, þar á meðal ranghugmyndum, sem við öll gerum okkur gjarnan um annað fólk, umfram allt vegna eigin óöryggis.
Nóttin hefur þúsund augu snýst að einu leyti um samband Einars við eigin uppruna, Hvíta kanínan um samband hans við eigið afkvæmi, Blátt tungl um samband hans við sjálfan sig.
Þetta kann að virðast offormuð og alvörugefin pæling miðað við það meginhlutverk krimma að halda lesendum vakandi og skemmta þeim með eftirvæntingarfullri atburðarás. En eitt þarf ekki að útiloka annað. Að hinu leytinu eru þessar sögur sakamálasögur, sem skoða umhverfi okkar og straumana sem um það leika, vonandi með einhvers konar blöndu af spennu og húmor. Allt ætti þetta að geta rúmast innan Einar Group.
Sögurnar um Einar eru leikur með það sem margir vilja kalla “formúlur” hefðarinnar, en fara ekkert endilega eftir þeim, enda virðast “formúlur” stundum fyrirferðarmeiri í hugum annarra en höfunda. Ég vona að Guð gefi að hann Einar minn breytist aldrei í formúlu eða öðlist pólitíska rétthugsun eða nái endanlega sálrænu jafnvægi. Fátt er leiðinlegra en krimma”hetja” sem er fullkomin og lifir átakalausu, hamingjuríku lífi. Við liggur að sama gildi um fólk yfirleitt. Er það ekki breyskleikinn sem gerir okkur að fólki en ekki formúlum?
Svona voru sögurnar um Einar blaðamann hugsaðar í sumarrigningu fyrir meira en áratug. Svona eru þær enn hugsaðar. Frá mínum bæjardyrum.
Árni Þórarinsson, haustið 2005.
Um höfund
Ný tegund íslenskra glæpasagna: Um sögur Árna Þórarinssonar
Árni Þórarinsson gaf út fyrstu skáldsögu sína, Nóttin hefur þúsund augu, árið 1998. Áður hafði hann fengist við blaðamennsku og annars konar ritstörf. Árni gaf út þessa fyrstu glæpasögu sína ári eftir að út komu sögurnar Synir duftsins, sem var fyrsta glæpasaga Arnaldar Indriðasonar, og Morðið í stjórnarráðinu sem var fyrsta sagan um lögfræðinginn harðsnúna Stellu Blómkvist. Segja má að þessir þrír höfundar hafi að vissu leyti markað upphaf glæpasagnabylgju hér á landi sem enn sér ekki fyrir endann á. Enda hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan og glæpasagan hefur á örfáum árum þróast frá því að vera bókmenntakimi sem nýtur lítillar virðingar eða vinsælda í það að vera eitt umtalaðasta bókmenntaform á landinu.
Í sögunni Nóttin hefur þúsund augu kynnir Árni söguhetju sína sem leikur einnig aðalhlutverk í tveimur næstu sögum, Hvítu kanínunni og Bláu tungli (en rétt er að geta þess að öll þessi nöfn eru dregin af nöfnum á þekktum dægurlögum). Þetta er Einar, drykkfelldur og kærulaus blaðamaður á Síðdegisblaðinu sem er fastagestur á börum bæjarins og nýtur einkennilega mikillar kvenhylli. Í þessari fyrstu sögu segir frá því þegar Einar er sendur til að fjalla um dularfullt dauðsfall á flugvallarhóteli í Reykjavík. Hann verður fyrstur með fréttina og er látinn fylgja henni eftir. Þannig flækist hann inn í dularfullt mál sem stendur nær honum en hann grunaði í upphafi.
Næsta saga Árna, Hvíta kanínan, kom út árið 2000. Hún gerist í sumarfríi Einars og dóttur hans, Gunnsu. Þau eru stödd í sólarlöndum þegar dularfullir atburðir fara að gerast. Í ljós kemur að hér er ekki um einskæra tilviljun að ræða heldur valdi Einar áfangastaðinn í von um að geta tekið upp þráðinn í rannsókn sem hann náði ekki að ljúka í fyrri bókinni. Einar missir þó fljótt stjórn á atburðarásinni og lendir Gunnsa í mikilli hættu vegna rannsóknar Einars.
Árið 2001 kom svo út Blátt tungl en hún gerist um jól. Einar á að taka áramótaviðtal Síðdegisblaðsins að þessu sinni en það er við hagfræðiprófessor sem myrti konuna sína á hryllilegan hátt fyrir mörgum árum en er nú genginn til liðs við kristinn sértrúarsöfnuð. Um leið fær Einar það verkefni að skrifa greinaflokk um skammdegisþunglyndi, sjálfsvíg og mannshvörf í íslensku samfélagi. Í þessum tveimur verkefnum kemst Einar á snoðir um margt misjafnt sem meðal annars tengist gömlum fjandmönnum hans úr fyrri bókunum tveimur.
Árni breytti svo aðeins til árið 2002 þegar hann skrifaði ásamt Páli Kristni Pálssyni söguna Í upphafi var morðið. Þar segir frá fjölskylduharmleik og er aðalsöguhetjan Kristrún, ungur kvikmyndaleikstjóri, sem átt hefur við þunglyndi að stríða. Einar birtist í litlu aukahlutverki og virðist einkum koma við sögu til að minna á að sögusvið og tími eru hin sömu og í fyrri bókum Árna.
Einar: Drykkfelld en geðþekk karlremba
Árni gerir söguhetju sína að blaðamanni enda umhverfi sem hann þekkir mjög vel sjálfur. Síðdegisblaðið minnir nokkuð á DV; a.m.k. hvað varðar efnistök og fyrirsagnir. Þekkt er að gera spæjara í glæpasögum að blaðamönnum en fyrsti þekkti spæjarablaðamaðurinn er talinn koma fyrir árið 1907, í sögu Gaston Leroux, La mystère de la chambre jaune en í henni er aðalspæjarinn blaðamaðurinn Joseph Rouletabille. Sporgöngumenn Rouletabille hafa ekki verið sérlega margir en blaðamenn birtast þó alltaf í spæjarahlutverkinu með reglulegu millibili, þeirra á meðal Einar.
Kosturinn við að hafa Einar eins drykkfelldan og raun ber vitni er að þá er hægt að tengja hann undirheimum og skemmtanalífi borgarinnar mun nánari böndum. Segja má að undirheimarnir séu séðir með augum heimamannsins í tilfelli Einars en til samanburðar má nefna að lögreglumennirnir í sögum Arnaldar virðast alltaf vera framandi gestir þegar þeir mæta á barina til að vinna rannsóknarvinnu (minna jafnvel á Derrick og Klein þegar þeir félagar ganga frakkaklæddir inn á skuggalega þýska bari í hinum ágætu sjónvarpsþáttum Derrick).
Reyndar má segja að aðalpersónueinkenni Einars í þessari fyrstu sögu sé stöðug áfengisdrykkja og reyndar ótrúlegt að nokkur maður geti hugsað skýrt með slíkt áfengismagn í blóðinu. Hjá Einari eru þó timburmennirnir ekki síður áberandi en drykkjan og drykkjan verður því hálf kaldhæðnisleg. Spæjarastörfin falla jafnvel í skuggann af drykkju Einars og sálarstríði.
Að þessu leyti, og reyndar ýmsu öðru, er Einar mun tengdari bandarísku glæpasagnahefðinni en margir aðrir íslenskir spæjarar. Einar er ekki maður sem hallar sér aftur í hægindastól og raðar saman brotunum þangað til þau mynda heillega mósaíkmynd eins og breskættaðir spæjarar gera gjarnan. Hann vinnur sig ekki heldur áfram með því að fara vandlega ofan í hverja vísbendingu eins og lögreglumenn í skandínavískum sögum.
Fremur rekst Einar áfram, fylgir innsæi sínu og blaðamannsnefi og gefst ekki upp fyrr en hann finnur glæpamanninn, oft með þrjóskunni einni saman. Slíkir spæjarar eiga rætur að rekja til persóna á borð við Sam Spade og Nick Charles sem koma fyrir í sögum Dashiells Hammetts og svo auðvitað Philips Marlowe sem er hugverk Raymonds Chandlers. Einnig minnir Einar á þessa spæjara að því leyti að í þeim þremur sögum Árna þar sem hann er aðalhetjan tengist hann glæpamálunum oft mjög persónulegum böndum. Þetta á t.d. við í fyrstu sögunni, Nóttin hefur þúsund augu, þar sem lausn morðmálsins reynist vera í fjölskyldualbúmi Einars ef svo mætti segja. Í Hvítu kanínunni er Gunnsu dóttur hans rænt í tengslum við rannsókn hans á dularfullu máli. Í framhaldi af þessu snúast glæpamálin oft upp í persónulega leit Einars að réttlæti.
Persóna Einars þróast nokkuð, strax í Hvítu kanínunni hefur hann dregið nokkuð úr drykkjunni og verður við það geðfelldari persóna. Þá verður hann einnig kaldhæðnari gagnvart sjálfum sér og lesendur kynnast aulalegri hliðum hans. Þessi skoplega sýn gefur Hvítu kanínunni skemmtilegan blæ og er hún líklega best af þeim þremur bókum þar sem Einar er í aðalhlutverki. Þar spilar einnig inn í áhugavert sögusvið en sagan gerist í Íslendingahópferð á Spáni og nær Árni að lýsa stemmningunni í slíkum ferðum á skemmtilegan hátt. Þá eru Íslendingar um leið settir í áhugavert samhengi við umheiminn þar sem samanburðurinn er síst okkur í hag.
Dræsur og aðrar konur
Aðrar persónur en Einar hafa verið nokkuð óljósar í sögunum um hann. Kvenpersónur hafa margar hverjar verið litlausar og meira í ætt við staðalmyndir en raunverulegar persónur. Þetta á þó ekki aðeins við sögur Árna heldur margar íslenskar glæpasögur. Þetta má teljast merkilegt þar sem klassíska glæpasagan (ráðgátan, e. whodunnit) hefur verið mikill kvennaheimur þar sem algengt er að bæði höfundar og söguhetjur séu konur. Hins vegar má finna karllæg sögumynstur í hvers kyns afþreyingarbókmenntum og þau eru mjög algeng í harðsoðnu sögunni svokölluðu en hún á rætur að rekja til bandarískra einkaspæjarasagna eftir Dashiell Hammet og Raymond Chandler.
Áður hefur verið bent á að Árni sækir spæjarategund sína til þessarar greinar glæpasagna og því ekki skrýtið að sögumynstrið sé í sama dúr. Hins vegar er þá skrýtið að ekki komi fleiri spennandi glæfrakvendi við sögu en slíkar manngerðir voru einmitt fastir passar hjá Hammet og Chandler. Árni reynir að búa til slíkar persónur, s.s. Sigríði á blaðinu, Elsu Gröndal í Hvítu kanínunni og Ástu geðlækni í Bláu tungli. Þær skortir hins vegar léttleika til að fylla upp í staðalmyndina en einnig dýpt til að verða raunverulegar persónur.
Í Nóttin hefur þúsund augu má segja að flestar kvenpersónur sem komi við sögu séu einhvers konar glyðrur og dræsur. Þeim er öllum lýst frá sjónarhorni Einars. Ef til vill eiga kvenlýsingarnar að vitna um persónueinkenni hans, annaðhvort sér hann ekkert nema drósir í kringum sig eða hann umgengst aðeins slíkar konur. Meðal þeirra er Eyrún, fyrrverandi kærasta hans, sem á við drykkjuvandamál að stríða og svívirðir lík manns sem hún hafði elskað en hafði hafnað henni.
Rauða Lóló kemur einnig við sögu en hún er reglulegur bólfélagi Einars og er þó gift öðrum manni. Hún er að leita að ástinni og brýst sú leit út í fjöllyndi þar sem ástina er ekki að finna í hjónabandinu. Hún virðist ekki vera virkur njótandi í kynlífi sínu; ef marka má orð sögumanns er kynlíf þjónusta sem hún veitir: „hún minnir mig á kjaftgleiða gæru sem er til þjónustu reiðubúin.“ (20)
Loks má nefna Sigríði, yfirmann á dagblaðinu sem Einar vinnur hjá. Hún hefur ekki komist í góða stöðu sakir eigin verðleika heldur með pólitískum klíkuskap. Lesandinn kynnist ekki starfi hennar. Útliti hennar, klæðaburði og dularfullum brosum sem hún beinir til Einars er hins vegar lýst í smáatriðum. Kvenkyns yfirmaður verður blautur draumur karlkyns undirmanns sem hefur mestu fyrirlitningu á andlegum hæfileikum hennar: „Eftir hálft ár í starfi er mér ekki kunnugt um að hún hafi enn hugmynd um hvernig blaðið verður til. En hún er glæsileg og leggjalöng í drögtunum sínum...“ (26). Sigríður fær þó nokkra uppreisn æru í Bláu tungli og getur talist marghliða persóna í þeirri sögu.
Allar konur fyrstu sögunnar eru í stöðluðum kynhlutverkum, metnar af útlitinu einu og séðar með augum karlmanna. Eina konan sem er nefnd vegna starfs síns er lesbísk, blaðaljósmyndarinn Jóa ljós. Hún er sögð góður ljósmyndari en útlitslýsing hennar er dæmigerð fyrir hefðbundnar hugmyndir um samkynhneigðar konur. Svo virðist sem lesbíur geti hafnað hefðbundnu kynhlutverki, þ.m.t. farsælu fjölskyldulífi og einbeitt sér í staðinn að starfsframanum. Um leið getur lesbían ekki verið falleg eins og „venjulegar“ konur enda er Jóu ljósi lýst svo þegar hún kemur inn „þykk og klossuð að vanda.“ (8). Í Hvítu kanínunni er þessi lýsing ítrekuð þar sem hún er sögð „vöðvastælt og fyrirferðarmikil“ (16).
Í Hvítu kanínunni fer Einar svo að mynda fast samband við móður kærasta dóttur sinnar, Rúnu, en það gengur upp og ofan enda virðast freistingar í kvennamálum leynast víða þegar Einar er annars vegar. Í raun má segja að fyrsta raunverulega kvenpersóna í sögum Árna sé Kristrún í nýjustu sögunni, Í upphafi var morðið, og það stafar kannski af því að sögumynstur er annað; harðsoðna bandaríska sagan er ekki lengur fyrirmyndin. Þá er Kristrún sögumaður og það breytir auðvitað sjónarhorninu.
Tvöföld flétta
Í íslenskum samtímaglæpasögum er mjög algengt að höfundar noti tvöfalda fléttu. Þá er glæpur framinn og við rannsókn hans kemur annar glæpur, oft mun háskalegri og umfangsmeiri, í ljós. Upprunalegi glæpurinn kemur þannig oft af stað keðjuverkun sem varpar ljósi á önnur mál. Raymond Chandler notaði tvöfalda fléttu iðulega í sögum sínum og segja má að í sögum Árna þar sem Einar blaðamaður er aðalhetjan sé alltaf verið að rekja sömu söguna af baráttu Einars við sömu illmennin þó að málin sem eru í forgrunni séu innbyrðis ótengd.
Bækurnar eru þó mismunandi innbyrðis og fer það eftir ólíku sögusviði og ólíkum aukapersónum. Um leið kynnist lesandi Einari betur og betur og því má líta á fyrstu þrjár bækurnar sem framhaldsbækur. Barátta Einars við glæpamennina nær svo hámarki í Bláu tungli sem snýst í raun um margar hliðar lífs Einars fremur en afmarkað glæpamál. Film-noir stíll er yfir öllu, bölsýni og ofsóknarkennd eru ráðandi og þó að sum mál leysist verður ekki það sama sagt um önnur og hin illu öfl standa enn stöðugum fótum í samfélaginu.
Í upphafi var morðið er annars konar saga þar sem sögð er fjölskyldusaga samhliða glæpasögu enda er Árni þar ekki einn á ferð heldur skrifar hann hana með Páli Kristni Pálssyni. Sú saga, ásamt Hvítu kanínunni, stendur líklega upp úr höfundarverki Árna enn sem komið er þó að því sé líklegast hvergi nærri lokið. Báðar tvær eru læsilegar glæpasögur en á ólíkum forsendum. Í Hvítu kanínunni er fléttað saman spaugi og spennu með góðum árangri en í Í upphafi var morðið er morðsögu fléttað saman við melódramatíska atburðarás.
Segja má að þríleikurinn um Einar (sem gæti þó átt eftir að verða fjölleikur) sé markverðasta tilraun sem gerð hefur verið hér á landi til að innleiða harðsoðnu glæpasagnahefðina inn í íslenskan bókmenntaheim. Þó að skiptar skoðanir séu um einstakar bækur innan flokksins er ljóst að tilraunin ein og sér er merkilegt innlegg í íslenska glæpasagnahefð.
© Katrín Jakobsdóttir.
Greinar
Almenn umfjöllun
Þorfinnur Skúlason: „Glæpamenn með hvíta flibba: um sýnilega glæpi og ósýnilega í bókum Árna Þórarinssonar“
Mímir, 44. árg., 2005, s. 44-51
Um einstök verk
Dauði trúðsins
Þorgerður E. Sigurðardóttir: „Dauði trúðsins“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Farþeginn (meðhöfundur er Páll Kristinn Pálsson)
Ingvi Þór Kormáksson: „Farþeginn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Glæpurinn: ástarsaga
Ingvi Þór Kormáksson: „Ást og glæpsamlegt athæfi“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Morgunengill
Ásdís Guðrún Sigmundsdóttir: „Syndir feðranna“ (ritdómur)
Spássían 2010, 1. árg., vetur, bls. 10.
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir: „Englar og djöflar fyrir norðan og sunnan“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Sjöundi sonurinn
Ingvi Þór Kormáksson: „Sjöundi sonurinn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Tími nornarinnar
Ingvi Þór Kormáksson: „Tími nornarinnar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
2004 - Blaðamannaverðlaun Íslands: Fréttaskýring um forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar í Tímariti Morgunblaðsins 2003
1984 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar: Einn í stríði eftir Evert Hartman (fyrir þýðingu)
Tilnefningar
2005 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Tími nornarinnar
2002 - Edduverðlaunin: 20/20 (besta sjónvarpshandrit)
Glæpurinn á armensku
Lesa meiraJarimat al saahir
Lesa meiraTreize jours
Lesa meiraIl settimo figlio
Lesa meiraIl tempo della strega
Lesa meiraDen sjuende sønnen
Lesa meiraLe crime: histoire d'amour
Lesa meira13 dagar
Lesa meiraDen sjunde sonen
Lesa meira
Einn í stríði
Lesa meira