Irina Bokova, framkvæmdastýra UNESCO, mennta- og menningarmálastofnunnar Sameinuðu þjóðanna sendi frá sér ávarp í tilefni Aþjóðadags bókarinnar, þann 23. apríl 2012. Í ár helgar UNESCO daginn þýðingum og minnir á mikilvægi þeirra. Það er því við hæfi að minna hér á Íslensku þýðingaverðlaunin, sem veitt voru á Gljúfrasteini fyrr í dag, og óska handhafa þeirra, Gyrði Elíassyni til hamingju með viðurkenninguna. Ávarp Irinu Bokovu: Samband okkar við bækur ákvarðar að miklu leyti samband okkar við menninguna. Þann 23. apríl, á alþjóðlegum degi bóka og höfundaréttar, hvetur UNESCO fólk um allan heim til að fylkja sér um bókina og styðja við þá sem hafa atvinnu af því að skapa bækur og einnig þá sem sjá til þess að bækurnar lifi. Bækur hafa breytt um form ótal sinnum í gegnum tíðina – frá bókrollum til skinnbóka, frá pappírshandritum til prentgripa og rafbóka. Hvert sem formið er fela bækur í sér hugmyndir og gildi, sem karlar og konur hafa álitið þess verð að deila með öðrum. Bækur eru dýrmæt tæki til að nálgast þekkingu og með þeim getum við deilt hugmyndum, skilningi og víðsýni hvert með öðru og um veröldina. UNESCO vill gera öllum kleift að nálgast þennan mikilvæga miðil. Sú iðja hefst í skólum, með samstilltu átaki gegn ólæsi meðal barna og fullorðinna og heldur síðan áfram í formi öflugrar menningarstefnu. Án menntunar segja blaðsíður bókanna okkur ekki neitt. Bækur standa sjaldnast einar, þær hvetja okkur til að lesa aðrar bækur sem síðan leiða í ljós nýja fjársjóði. Án jafns aðgangs að þessum fjársjóðum í gegnum raunveruleg eða rafræn bókasöfn, dvínar máttur bókarinnar og fjölbreytileikinn hverfur. Bókakeðjan er byggð á viðkvæmu jafnvægi og þarfnast árvekni og tækja sem halda henni uppi. Sáttmálar UNESCO, svo sem Sáttmálinn um að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform, eru dæmi um slíkt tæki. Verndun höfundaréttar er einnig höfuðatriði og áttaviti í því síbreytilega menningarlandslagi sem við búum við. Á alþjóðlegum degi bókarinnar í ár leggur UNESCO áherslu á þýðingar. Við höldum upp á að áttatíu ár eru liðin frá því að UNESCO setti á fót INDEX TRANSLATIONUM, lista yfir þýddar bækur í aðildalöndum samtakanna. Þessi einstaki listi er dýrmætt tæki til að halda utan um menningarflæði milli landa. Þýðingar eru fyrsta skrefið til að sætta þjóðir og á sama tíma leiða þær fjölbreytileikann í ljós og hvetja til samræðu. Þýðingar eru meðal helstu stoðanna í skapandi margbreytileika, þær auðga hvert tungumál með snertingu við öll önnur mál heimsins. Í þeirri veröld sem við lifum í höfum við þörf fyrir að skilja ólíka menningarheima og ýta undir mun sterkari fjölmenningarlega eiginleika í hugum þeirra karla og kvenna sem byggja heiminn. Við þurfum á þessum hæfileikum að halda til þess að geta lifað saman í margbreytilegum samfélögum. Við þurfum á þeim að halda til að geta tekist á við sameiginlegar áskoranir. Árið 2012 setur UNESCO Alþjóðadag bókarinnar í Yerevan í Armeníu, sem er Höfuðborg bókanna (World Book Capital) í ár. Ég skora á alla félaga UNESCO, í háskólum, stjórnum og öðrum stofnunum að muna að í bókum er falið afl og að þær bera með sér tækifæri sem allir ættu að hafa í höndum sér. Irina Bokova, apríl 2012.
Ávarp Irinu Bokovu í tilefni Alþjóðadags bókarinnar
