Beint í efni

Banvæn snjókorn

Banvæn snjókorn
Höfundur
Sif Sigmarsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur

um bókina

 

#Hanna neyðist til að flytja af æskuheimili sínu í London og til pabba síns á Íslandi, manns sem hún þekkir varla. Þar á hún að ganga í menntaskóla og flækjast fyrir fullkomnu fjölskyldunni á heimilinu. Hanna fær aukavinnu í blaðamennsku sem sem alveg óvart verður björgunarhringurinn sem heldur henni á floti.

#Imogen er áhrifavaldur með meira en milljón fylgjendur. Hún reynir að pósta tvisvar á dag en upp á síðkastið hefur bæði fylgjendum og #samstarf beiðnum fækkað. Síðan hún lenti í #óvættinum verður æ erfiðara að halda fókus – og andlitinu. Svo er Imogen beðin um að halda fyrirlestur um samfélagsmiðla í Hörpu, Reykjavík.

Þegar lík finnst við Reykjanesbrautina liggja leiðir Hönnu og Imogen saman. Önnur er grunuð um morð, leitin að sannleikanum leggur hina í lífshættu.

úr bókinni

Þegar Imogen kemur í vinnuna er Mörður hvergi sjáanlegur og hún fyllist ósegjanlegum létti. Hann er ekki á sinni skrifstofu, sem gegnir líka hlutverki fundarhergergis, og ekki heldur á opna sameiginlega vinnusvæðinu þeirra. 

"Hann vinnur heima í dag," segir Orri úr "elshúsinu" sem samanstendur af litlu borði í einu horni herbergisins, með kaffivél og sprungnu fati með kexi og óþroskuðum ávöxtum, og agnarlitlum ísskáp sem rúmar lítið annað ein dietkókdósirnar hans Marðar.

Orri nælir sér í kexköku. Imogen hefur tekið eftir því að hann borðar bara kexið sem er með súkkulaði ofan á. Henni finnst það krúttlegt.

Það er notalegt á vinnustofunni þegar þau eru bara tvö. Orri sagði henni að starfsmannafjöldinn færi eftir því hve mikið væri að gera og hversu vel gengi að fá nemendur til að vinna ókeypis. Í augnablikinu eru þau bara þrjú.

"Þetta gerist sífellt oftar," segir Orri með munninn fullan af kexi. 

"Hvað?"

"Ja, við köllum það "að skreppa" á Íslandi. Allt í einu þarf Mörður rosalega oft að skjótast eitthvað út; segist þurfa að sinna persónulegum erindum og koma fljótt aftur. Stundum er hann í burtu tímunum saman. Áður var hann nánast alltaf á skrifstofunni. En síðustu tvær vikurnar hefur hann verið oftar fjarverandi en þessi tvö ár sem ég hef unnið með honum samanlagt."

Óveðursskýin byrja að hrannast upp út við sjóndeildarhringinn í huga Imogen. Er þetta út af henni? Er hann að reyna að forðast hana? Grunar hann eitthvað?

"Ég veit að hann er að vinna að öðru verkefni samhliða okkar verkefni. Kannski eru hliðarverkefnin fleiri."

Kannski tengist þetta henni ekki neitt.

"Má hann það?"

Orri yppir öxlum. "Það veit ég ekki. Hann er í fullri stöðu við háskólann. Og rannsóknastofan er nýbúin að skrifa undir risasamning við London Analytica og það tekur heilmikið af tíma hans. Svo á hann líka tvö börn svo að ég botna ekki alveg í því hvernig hann ætti að hafa tíma til að taka fleiri verkefni að sér."

Hann á tvö börn. Imoen var alveg búin að gleyma því. Skyndilega finnst henni áætlunin hennar allt of kaldrifjuð. Grimmdarleg. Hún bægir þeirri hugsun frá sér. Það er ekki hennar mál hvort hann á börn eða ekki. Hann hefði átt að hugleiða það sjálfur áður en hann ...

(s. 154-156)

 

 

Fleira eftir sama höfund

La fille qui jouait avec le feu

Lesa meira

Das dunkle Flüstern der Schneeflocken

Lesa meira

Einu sinni var dramadrottning í ríki sínu

Lesa meira

I am traitor

Lesa meira

Ég er svikari

Lesa meira

The sharp edge of a snowflake

Lesa meira

Moi, Edda, reine des faux plans

Lesa meira

Sjúklega súr saga

Lesa meira