Um þýðinguna
Úrval ljóða úr fjórum ljóðabókum litháíska skáldsins Gintaras Grajauskas.
Gintaras Grajauskas er vel þekkt ljóðskáld í heimalandi sínu Litháen og tilheyrir þeirri kynslóð rithöfunda sem kom fram á sjónarsviðið eftir að þjóðin endurheimti sjálfstæði sitt upp úr 1990. Ljóð hans vega oft salt á milli skipulags og óreiðu, í þeim rúmast bæði fjarvídd og nánd, en þau brúa líka á vissan hátt bil sem öðrum skáldum hefur ekki tekist jafn vel að gera skil. Undir hversdagslegu yfirborði birtist vænn skammtur af kímni, nöpru háði og hárbeittri ádeilu.
Úr Beinhvítum ljóðum
Áin
rétt fyrir ofan vatnsborðið
rétt fyrir ofan brekkuna
í sólskininu
beiningamaður
rétt fyrir neðan beiningamanninn
mýflugur, volg leðja
fullkomin fyrir beran fót
vatn og botngróður
svo grænn að hann er svartur
drekaflugur flögra yfir vatninu
einsog óðar, eitt augnablik alveg kyrrar,
í lausu lofti, einsog þær hafi munað eftir einhverju,
augun stærri en hausinn á þeim
gjörsamlega agndofa
yfir fegurð þessa heims.