Það eru drekaflugurnar sem svo er lýst að augun séu „stærri en hausinn á þeim” og þannig virðast þær „gjörsamlega agndofa / yfir fegurð þessa heims”. Ljóðið er eftir hinn litháíska Gintaras Grajauskas en hann var einn af gestum bókmenntahátíðar nú í haust. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson gaf af því tilefni út bókina Beinhvít ljóð með sínum eigin fínu þýðingum á ljóðum Grajauskas. Það veitir kannski ekki af að minna á að það eru ekki bara glæpamenn sem koma frá Litháen, þaðan berast líka nokkuð glæpsamlega góð ljóð.
Bókin er ljóðasafn úr nokkrum bókum Gintaras og ber því með sér að vera svolítið samansett, en það kemur ekki að sök því að í staðinn fær lesandi að bragða á ólíkum sortum ljóða og stemninga. Þannig eru ljóðin ýmist nokkuð stórkarlaleg og æst en geta líka verið pen og stillt, eins og í syrpu af einskonar hækutilbrigðum undir yfirskriftinni „Vox coelestis”:
Nekt í speglinum
hann sem passaði svo vel
einsog hann væri sniðinn á migog sjáðu núna -
allur krumpaður
Og:
Allt tekur enda
aðeins brjálaði vatnastiklarinn
fer snúning eftir snúning
Þar fyrir utan fara ljóð Litháans út um víðan völl: náttúrumyndir eru nokkuð algengar, en þær taka á sig ýmis form því í gömlum kirkjum lifir náttúran góðu lífi eins og í ljóðinu „Háloftin í sveitakirkjum”. Þar sitja „kóngulóarvefir / í fellingunum” á fatnaði helgra líkneskja, og „María mey búin að týna barninu / Jesú” sem er mögulega einmitt „flæktur í kóngulóarvefi”. Yfir altarinu fljúga svo leðurblökur. Kóngulær koma svo aftur við sögu í hánútímalegu ljóði um „Það sem er í miðju internetsins”, en „dulspekingar segja” að þar sé einmitt kónguló. Fagmenn vilja hinsvegar meina að þar sé ekkert: „áhugaverðast við internetið / er Hvergi // einmitt þar / heimilisfangið okkar”.
Í einu ljóði útskýrir foreldri fyrir barni að þjóðin hafi engan kóng, heldur bara forseta og rekur svo skipan stjórnmála í því sem enn kallast lýðræði:
nú máttu ekki gráta, bara ekki gráta, ég ætla að afhjúpa
fyrir þér eitt leyndarmál: eiginlega er Elvis okkar
kóngur, en segðu ekki orð um það við neinn
Annað ljóð skoðar hvernig líf ljóðmælanda yrði sem myndasaga, sem minnir ekki lítið á kúrekamynd, og enn annað minnir á að „skáld eru einsog indjánar / þau dauðu yfirleitt best”. Og ekki má gleyma ljóðalestrinum, hann á sér stund í bók Gintaras, sem einmitt fangar svo vel þann tvíræða tón íróníu og barnslegrar gleði sem einkenna ljóðin. Hér má velta fyrir sér hvort skáldið sé að skoða sjálft sig í spéspegli eða hvort það sé jafnvel að velta fyrir sér stöðu ljóðsins sjálfs á tímum hnattvæðingar og kóngulóalausra neta. Lestrinum er lýst sem eiginlega of góðum, þarna er allt sem við á að éta, „rétta hljómfallið / búinn að merkja við réttu áherslurnar á undan / með rauðum penna”, enda er hann „hæfileikaríkur smjaðrari / sem fer yfir tilfinningaskalann einsog píanóleikari”. Sjálfur er lesarinn hugfanginn af eigin lestri og skapar í kringum sig andrúmsloft heillar kirkju, sem er „öll fyrir hann sjálfan”. En þrátt fyrir öll lætin og allt yfirborðið er þarna eitthvað á sveimi:
þótt í fjarlægu horni
sé hljóðlát kirkjumús
ljóð
Úlfhildur Dagsdóttir, október 2009