Beint í efni

Bókmenntaborg í Blóma

Heimsþing PEN International og Bókmenntahátíð í Reykjavík

Heimsþing PEN International, alþjóðasamtaka rithöfunda, ritstjóra, þýðenda og blaðamanna, verður haldið í Reykjavík dagana 9. til 12. september, í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu. Von á fjölda gesta á þingið, frá öllum heimshornum. PEN International eru meðal elstu starfandi mannréttindasamtaka heims. Samtökin hafa staðið vörð um tjáningarfrelsi og barist  fyrir þeim málstað víða um heim allt frá stofnun þeirra árið 1921. Yfirskrift þingsins er „Digital Frontiers – Linguistic Rights and Freedom of Speech“ og verður það mál rætt frá ýmsum hliðum á meðan þinginu stendur. Meðal þess sem verður tekið til umfjöllunar er hlutskipti tungumála sem fáir tala og óvíst er hvernig muni spjara sig á tölvuöld. Þingið er haldið í náinni samvinnu við Alþjóðlegu bókmenntahátíðina í Reykjavík, sem hefst 11. september, og munu þing og hátíð standa fyrir opnum bókmenntadagskrám í Hörpu og í Norræna húsinu 11. og 12. september. Hér að neðan má glöggva sig á sameiginlegum dagskrám Bókmenntahátíðar og heimsþings PEN.

Harpa, 11. september

New Voices Award | Harpa – Flói – kl. 14:00

Rætt við þrjá unga höfunda sem tilnefndir eru til nýrra verðlauna sem PEN samtökin hafa stofnað til. Verðlaununum er ætlað að hvetja unga rithöfunda til dáða. Frekari upplýsingar hér.

Tungumál og rétturinn til að nota þau | Harpa – Flói – kl. 15:00

Er varðveisla tungumála mannréttindamál eða er hún eingöngu rædd í pólitískum tilgangi. Á að leyfa tungumálum að deyja út eða er ástæða til að grípa inn í áður en slíkt gerist? Josep­Maria Terricabras stýrir umræðum um tungumálaréttindi, en aðrir sem taka þátt eru Auður Hauksdóttir, Vigdís Finnbogadóttir og Émile Martel. Frekari upplýsingar hér.

Pallborðsumræður um hatursglæpi | Harpa – Flói – kl. 16:00

Klaus Slavensky frá danska PEN stýrir umræðum um hatursglæpi en auk hans taka þátt þau Auður Jónsdóttir, Ola Larsmo forseti sænska PEN, Jarkko Tontti forseti finnska PEN og Peter Normann Waage, sem á sæti í stjórn norska PEN. Frekari upplýsingar hér.

Hátíðardagskrá í Eldborg | Harpa – Eldborg – kl. 20:00

Dagskráin nær hátindi sínum á sameiginlegri hátíðardagskrá Bókmenntahátíðar og PEN International í Eldborgarsal Hörpu, þar sem tilkynnt verður um hver hlýtur ‚New Voices‘ verðlaun PEN International. Meðal rithöfunda sem koma fram eru James Fenton, eitt þekktasta ljóðskáld Bretlandseyja, og síleski rithöfundurinn Antonio Skármeta, sem þekktastur er fyrir bókina Ardiente paciencia sem Óskarsverðlaunamyndin Il postino er byggð á. Frekari upplýsingar hér.

Norræna húsið, 12. september

Svetlana Alexievitch í spjalli við Ola Wallin | Norræna húsið – 14:00

Hvít­rússneski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Svetlana Alexievitch spjallar við sænskan útgefanda sinn Ola Wallin frá bókaforlaginu Ersatz. Frekari upplýsingar hér.

Freedom of Speech: Digital Frontiers | Norræna húsið – 15:00

Kanadíski rithöfundurinn Douglas Coupland, John Ralston Saul forseti PEN International, Ali Ravi (Tactical Technology Collective) ræða framtíð tjáningarfrelsis á netinu. Frekari upplýsingar hér.

The Rise of Obscenity in Media | Norræna húsið – 16:15

Enska ljóðskáldið, gagnrýnandinn og blaðamaðurinn James Fenton heldur erindi í Norræna húsinu fimmtudaginn 12. september kl. 16:15. Hann nefnir erindið The Rise of Obscenity in Media. Frekari upplýsingar hér.

Heimurinn les í Reykjavík

Mánudag og þriðjudag, 9. og 10. september verða upplestrar utan dagskrár á fimm stöðum í miðborginni. Þeir eru Borgarbókasafn Reykjavíkur, Café Haiti, Iða Zimsen, Loft hostel og Alliance francaise. Á fimmta tug höfunda frá öllum heimshornum les upp á þessum viðburðum, en heildardagskrá er að finna hér á vef Bókmenntaborgarinnar. Heildardagskrá PEN þingsins og Bókmenntahátíðar í Reykjavík er að finna á vef Bókmenntahátíðar.