Beint í efni

Gröndalshús

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO rekur menningarhús í miðborg Reykjavíkur kennt við skáldið Benedikt Gröndal (1826-1907) sem þar bjó. Húsið stendur á horni Fishersunds og Mjóstrætis eftir flutning þess frá Vesturgötu 16a þar sem það stóð upphaflega í flæðarmálinu. 

Benedikt Gröndal var stórhugi á sínum tíma og má kalla hann glæsilegan fulltrúa nítjándu aldarinnar sem og húsið sem við hann er kennt. Benedikt var skáld, náttúrufræðingur, myndlistarmaður og kennari. Hann var einnig áhugamaður um mótun bæjarins og þróun Reykjavíkur sem höfuðstaðar Íslands eins og grein hans Reykjavík um aldamótin 1900 ber vitni um, en hún hefur nú verið gefin út á bók. Auk ljóða og prósatexta liggja eftir hann greinar um lífið í bænum þar sem hann leggur til umbætur á höfuðstaðnum í anda þess sem tíðkast í erlendum stórborgum. Minning Gröndals dofnaði um miðbik síðustu aldar en mikilvægi hans í íslenskri bókmennta og menningarsögu hefur verið staðfest síðastliðin ár með útgáfu á verki hans Íslenskir fuglar og endurútgáfu á sjálfsævisögu hans Dægradvöl, sem er ein rómaðasta sjálfsævisaga íslenskra bókmennta. Gröndal er einnig lifandi í skáldverkum samtímaskálda og má þar nefna skáldsögurnar Sæmd eftir Guðmund Andra Thorsson og Öræfi Ófeigs Sigurðssonar.

Gröndalshús er merkilegt í byggingarsögu borgarinnar, það var reist árið 1882 og þá strax sérstakt fyrir einstakt útlit sitt. Húsið hefur verið friðað og í því er hluti af byggingarsögu 19. aldar varðveitt. Mikilvægt er að heiðra minningu slíks rithöfundar og fræðimanns sem Benedikt Gröndal var og lyfta um leið fram menningarsögu 19. aldar sem fyrir margar sakir myndar grunninn að þeirri borg sem Reykjavík er í dag. Minjavernd annaðist endurgerð hússins fyrir hönd Reykjavíkurborgar og arkitekt endurgerðarinnar var Hjörleifur Stefánsson.

Endurgert Gröndalshús var opnað í júní 2017. Á aðalhæð þess er viðburðarými, í kjallara er gestaíbúð fyrir erlenda rithöfunda, þýðendur og fræðimenn og í risi er vinnuaðstaða fyrir innlenda lista- og fræðimenn.

Nánari upplýsingar: bokmenntaborgin(hjá)reykjavik.is