Bókmenntaborgin Reykjavík og Borgarbókasafn standa saman að bókmenntaviðburðum á Hinsegin dögum. Boðið verður til sýningar á teikningum Kristínar Ómarsdóttur í aðalsafni Borgarbóksafns í Tryggvagötu 15 og hin sívinsæla hinsegin bókmenntaganga verður einnig á dagskrá.
Marilyn og Greta – teikningar Kristínar Ómarsdóttur
Þriðjudaginn 7. ágúst opnaði sýning á teikningum Kristínar Ómarsdóttur. Á síðasta ári sendi Kristín frá sér bókina
Við tilheyrum sama myrkrinu – Af vináttu: Marylin Monroe og Greta Garbo. Þar birti hún sögur og teikningar sínar af þeim stöllum og nú birtast leikkonurnar tvíefldar á veggjum bókasafnsins.
„Ég byrjaði að teikna Marilyn Monroe og Gretu Garbo fyrir mörgum árum. Það gerðist óvart: allt í einu teiknaði ég mynd af Marilyn eftir ljósmynd, gaf vinkonu minni sem hengdi teikninguna upp á vegg,“ segir Kristín um tilurð teikninganna.
„Síðan fór ég að hafa það fyrir sið, að teikna Marilyn, upp úr bókum sem ég hafði keypt á mörkuðum, eða urðu á vegi mínum á ferðalögum, og af ljósmyndum á internetinu. Þegar ég skrifaði fyrstu söguna um leikkonurnar fór ég að teikna Gretu upp úr bókum sem ég hafði eignast og lesið ung, en bækur um Gretu voru nú horfnar úr hillum bókabúða, en ekki af internetinu. Þá hóf ég að búa til þessa bók með sögum og teikningum. Ég lifði mig inn í viðfangsefnið. Stöku sinnum brá ég mér yfir girðinguna og kíkti frá öðru sjónarhorni inn í vinnuherbergið og sýndist mér ég vera að fást við eitthvað sem ég gæti kallað unglingslegt, þá brosti ég út í annað, hló að sjálfri mér og öllum heiminum, klifraði til baka og settist aftur dáleidd og utan við mig niður við vinnuborðið.“
Á opnuninni spjallaði Kristín við gesti, leikkonan Arndís Hrönn Egilsdóttir flutti texta úr bókinni og þær Ragnhildur Gísladóttir og Lay Low tóku lagið. Kynnir er Gunnhildur Hauksdóttir. Sýningin stendur út ágústmánuð.
Hinsegin bókmenntaganga
Hinsegin bókmenntagöngur hafa löngum verið vinsæll liður á dagskrá Hinsegin daga. Í ár bjóða Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafn upp á slíka göngu um miðborg Reykjavíkur á ensku í fylgd Úlfhildar Dagsdóttur bókmenntafræðings, sem staldrar við á stöðum og staðleysum og rifjar upp gamlan og nýjan skáldskap – gamlar vögguvísur, kveinstafi kvalinna ásta og minningar um varanlegar nætur, jafnvel úr stáli. Í fylgd með henni er leikarinn Darren Foreman sem les brot úr skáldskapnum. Einnig verður rithöfundurinn Elías Portela (Elías Knörr) með í för, en ljóð eftir hann eru meðal verka sem koma við sögu í göngunni.
Gangan hefst á Ingólfstorgi föstudaginn 10. ágúst kl. 17:00. Ferðin tekur um klukkustund og þátttaka er ókeypis. Í þetta sinn fer leiðsögnin fram eingöngu á ensku.
Hér má svo nálgast lista yfir bækur og kvikmyndir, með mismikla hinsegin tengingu, sem finna má á Borgarbókasafni Reykjavíkur (PDF).