Bókmenntahátíð í Reykjavík hefst miðvikudaginn 11. september og stendur til sunnudagsins 15. Sautján erlendir höfundar frá sextán löndum hafa staðfest komu sína auk sex erlendra útgefenda og umboðsmanna. Meðal erlendra rithöfunda sem koma munu fram á hátíðinni eru Douglas Coupland frá Kanada, Kiran Desai frá Indlandi, Rachel Joyce frá Bretlandi og Herman Koch frá Hollandi. Alls hafa sautján erlendir rithöfundar frá sextán löndum staðfest komu sína. Þá taka tíu íslenskir rithöfundar þátt í dagskránni, þar á meðal Auður Jónsdóttir, Gerður Kristný, Hermann Stefánsson, Stefán Máni og Rúnar Helgi Vignisson. Heildarlista höfunda hátíðarinnar má sjá á heimasíðu Bókmenntahátíðar. Það stefnir í spennandi hátíð í ár og lesendur fá að kynnast höfundum hvaðanæva að úr heiminum. Bókmenntahátíð í Reykjavík er góður vettvangur til að hittast og ræða saman um heimsbókmenntirnar og hvaðeina, stækka lesendahópinn og eignast nýja vini. Að hátíðinni stendur framáfólk í íslensku bókmenntalífi, rithöfundar, útgefendur og gagnrýnendur. Fjölmargir viðburðir eru á dagskrá hátíðarinnar: Kvöldupplestrar, höfundaviðtöl, fyrirlestrar og pallborðsumræður. Þá hafa ýmsar sýningar verið settar upp í tengslum við hátíðina í gegnum tíðina og árið í ár verður engin undantekning þar á. Sett verður upp sýning á teiknimyndum sem sýna lífið á Grænlandi á fyrri tíð en myndirnar eru eftir einn helsta teiknara Grænlands og einn gesta hátíðarinnar, Nuka Godtfredsen. Rithöfundar fá tækifæri til að kynnast landi og þjóð. Boðið er upp á kynnisferð um landið og Rithöfundasamband Íslands er sótt heim svo eitthvað sé nefnt. Hátíðin stendur fyrir Bókaballi, sem var haldið fyrst árið 2011 og sló í gegn. Þar fá lesendur tækifæri til að dansa við uppáhaldsrithöfundinn sinn við undirleik lifandi tónlistar. Bókmenntahátíð í Reykjavík hefur fest sig í sessi sem einn helsti bókmenntaviðburðurinn í Reykjavík. Hlutverk hátíðarinnar er að kynna íslenskum lesendum helstu strauma í heimsbókmenntunum, leiða saman íslenska og erlenda höfunda, og koma á fundi lesenda og höfunda og frá því að til hennar var stofnað hefur hátíðin fengið að vaxa og dafna. Bókmenntahátíð í Reykjavík er haldin með stuðningi Norræna hússin, Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Reykjavíkur og Bókmenntaborgar UNESCO, Norræna menningarsjóðsins og Félags íslenskra bókaútgefenda auk annarra.
Bókmenntahátíð í Reykjavík
