Beint í efni

Bókmenntahátíð stúdenta

Síðasta dag vetrar, 24. apríl nk. kl. 20.00, munu meistaranemar í ritlist og hagnýtri ritstjórn og útgáfu standa fyrir Bókmenntahátíð stúdenta í Stúdentakjallaranum. Þar munu nemendur í ritlist lesa úr verkum sínum auk þess sem Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og ritstjóri mun stýra barsvari (pubquiz) þar sem spurningar úr heimi bókmenntanna verða í fyrirrúmi. Bókmenntahátíðin er hluti af námskeiði meistaranemanna „Á þrykk“ en markmið þess er að koma út rúmlega 200 blaðsíðna bók með sýnisverkum þrettán meistaranema í ritlist í ritstjórn fimm meistaranema í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Leiðbeinandi er Guðrún Sigfúsdóttur ritstjóri. Frá 1. mars sl. hefur verið hægt að fylgjast með baráttu þessara 18 háskólastúdenta í bókaútgáfu á blogginu bokverdurtil.net en útgáfudagur er settur 15. maí nk. Á Bókmenntahátíð stúdenta 24. apríl nk. gefst kjörið tækifæri til að berja augum þessa vaxtarsprota íslenskra bókmennta auk þess sem tekið verður á móti fyrir fram pöntunum á bókinni sem og frjálsum framlögum. Þá er tilvalið að rifja upp almenna þekkingu sína á bókmenntum í barsvari (pubquiz) en Guðmundur Andri Thorsson mun stýra því auk þess að hafa samið spurningarnar. Meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands er ný námsleið og eru meistaranemarnir í námskeiðinu þeir fyrstu sem útskrifast úr því námi. Umsjón með náminu hefur Rúnar Helgi Vignisson. Meistaranám í hagnýtri ritstjórn og útgáfu hefur hins vegar verið í boði um nokkurra ára skeið og nýtur vaxandi vinsælda. Umsjón með náminu hefur Gunnþórunn Guðmundsdóttir. Höfundarnir þrettán eru Ásdís Þórsdóttir, Björk Þorgrímsdóttir, Bryndís Emilsdóttir, Dagur Hjartarson, Daníel Geir Moritz, Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Kristian Guttesen, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Þór Tulinius, Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir og Æsa Strand Viðarsdóttir. Ritstjórar eru: Almarr Ormarsson, Árni Þór Árnason, Björg Björnsdóttir, Dagný Berglind Gísladóttir og Ellen Klara Eyjólfsdóttir.