Um bókina
Jólin nálgast. Reykjavík er hulin snjó og borgarbúar flestir í óðaönn að undirbúa hátíðarhöldin. Þó ekki lögreglumaðurinn Hörður Grímsson frá Súðavík, yfir honum lúrir jólakvíðinn eins og svartur skuggi.
Tilkynnt er hvarf fjögurra hælisleitenda úr gistiskýli og er Hörður Grímsson settur í málið. Leitin að mönnunum fer fram með leynd enda vill lögreglan ekki að almenningur hafi áhyggjur.
Ef fólk getur ekki verið öruggt hér uppi á litla Íslandi, hvar þá?
Aðventa er sjötta bók Stefáns Mána um lögreglumanninn Hörð Grímsson.
Úr Aðventu
Hörður stendur við gatnamót Vitastígs og Bergþórugötu, snýr sér í hringi, andar frá sér gufu og fórnar höndum í annað sinn á innan við korteri. Hann myndi glaður fórna geit, ef það hjálpaði til við að finna fjandans vinnubílinn. Hann blæs eins og hvalur, strýkur svitaperlur af enninu og deplar rauðsprengdum augunum. En það er sama hversu mikið og fast hann starir á nálæg bílastæði, svarti jeppinn birtist ekki í neinu þeirra. Fordinn er ekki í næsta nágrenni Vitabars, sem er á horninu vestan megin, á hálfniðurgrafinni jarðhæð í gömlu íbúðarhúsi.
Göturnar eru þaktar móbrúnni leðju sem er hrærigrautur úr snjó, óhreinindum og öllu því salti sem borgaryfirvöld láta dreifa hvern þann dag sem frystir eða snjóar. Í gluggum húsanna logar á aðventuljósum og víða eru ljósaseríur á þakköntum, girðingum og svalahandriðum.
Hörður ræskir sig, enda þurr í kverkunum eftir labbið auk þess sem afréttarinn er um það bil að hætta að virka. Bráðum fær hann handskjálfta, kaldur sviti mun spretta fram, ógleðin kviknar að nýju og höfuðið breytist í ofurviðkvæma gasblöðru.
Hann gengur yfir götuna og opnar inn á veitingastaðinn. Það klingir í bjöllu og kunnugleg lykt kitlar hann í nefið - sérstök blanda af steikarbrælu, tóbaksreyk, svörtu skúringavatni og hlandstybbu.
"Bara mættur," segir vertinn um leið og hann tekur barstólana niður af afgreiðsluborðinu, þar sem þeir stóðu á haus, og setur þá á sinn stað. Vertinn er feitlaginn karlmaður um fimmtugt. Hann er í hvítum bol sem strekkist yfir stóran magann og með viskastykki yfir annarri öxlinni.
"Ég er bara að ..." Hörður klárar ekki setninguna, enda er hann ekki viss um hvað hann ætlar að segja. Hann lítur í kringum sig, flóttalegur á svip. Staðurinn er mannlaus fyrir utan hann og vertinn.
"Má bjóða þér eitthvað?" Vertinn tekur upp skúringafötu og gengur með hana aftur fyrir barborðið. Innan um flöskurnar á hillunum er búið að þræða marglita ljósaseríu sem eflaust á að fylla staðinn af jólaanda en gerir lítið annað en ýkja deyfðina, eymdina og ömurleikann sem einkennir bæði húsakynnin og drykkfellda fastagestina.
"Nei ... Eða ..." Hörður trommar með fingrum á borðið, sem er enn rakt eftir blauta tusku. "Hérna, segðu mér. Kom ég hingað í gær? Eftir vinnu?"
(28-29)