Um bókina
Æska er annar hlutinn í endurminningaþríleik Tove Ditlevsen. Í bókinni segir hún frá fyrstu fullorðinsárum sínum þegar hún fer út á vinnumarkaðinn, flytur að heiman, trúlofast og vinnur að því að fá ljóð sín gefin út. Hún lýsir samskiptum kynjanna og hvernig stéttaskipting og áhersla á hefðbundin kynhlutverk leggur hömlur á möguleika kvenna.
Tove Ditlevsen (1917-1976) þykir með merkari höfundum Dana og hefur notið vinsælda hjá mörgum kynslóðum lesenda. Verk hennar gefa innsýn í líf kvenna á 20. öld og eru nú lesin sem sígildar bókmenntir. Bernska er fyrsti hluti þríleiksins og Gift er lokahlutinn.
Úr bókinni
Við Erling förum alltaf í bíó á laugardagskvöldum. Hann stendur og bíður eftir mér og hallar sér upp að húsveggnum með hendur í vösunum á frakka pabba síns, sem hann hefur erft, alveg eins og ég hef erft frakka bróður míns. Ef ég læt hann bíða of lengi tyggur hann eldspýtur og vefur hárinu um fingur sér. Þegar við göngum út úr portinu hrópar mamma út um gluggann: Bless, Tove. Það þýðir að hún viðurkennir þetta samband og Erling tekur því líka þannig. Hann spyr hvort hann megi ekki koma og heilsa upp á foreldra mína. Nei, segi ég, ekki strax. Mamma spyr hvort hann sé með klumbufót eða skarð í vör fyrst þau megi ekki hitta hann. Ég vil ekki heldur heimsækja foreldra Erlings því þá munu þau halda að við séum trúlofuð. Það væri bæði auðveldara og skemmtilegra fyrir mig ef ég ætti vinkonu, en ég á enga lengur og þess vegna er Erling betri en enginn. Mér líkar vel við hann því hann er líka svolítið einkennilegur og líkur mér að mörgu leyti. Pabbi hans er verkamaður sem er oft atvinnulaus. Hann á fullorðna systur sem er gift. Hann langar að verða kennari en hann kemst ekki inn í kennaraskóla fyrr en hann verður orðinn átján ára. Hann er að safn peningum fyrir því. Hann segir að það sé glæpsamlegt að fyrirtækið sé rekið án þess að starfsfólkið sé í stéttarfélagi, en ef hann skráir sig í stéttarfélag verður hann rekinn. Hann er með tuttugu og fimm krónur í laun á viku. Ég borga fyrir sjálfa mig þegar við förum í bíó, bæði vegna þess að hann hefur ekki efni á að borga fyrir okkur bæði og vegna þess að mér finnst það veita mér meira frelsi. Öll þessi kvöld eru alveg eins. Þegar myndin er búin fylgir hann mér heim og inn í dimmu portinu faðmar hann mig og kyssir. Á meðan veiti ég honum athygli með ákveðinni kuldalegri forvitni til að kanna hversu mikið ég get æst hann upp. Væri ég ástfangin af honum yrði ég líka æst, en það er ég ekki og það veit hann vel. Á ákveðnu augnabliki losa ég kaldar hendur hans frá hnakkanum á mér og segi: Nei, þú mátt þetta ekki. Ó, jú, hvíslar hann andstuttur, það er alls ekki vont. Nei, segi ég, og ég hef engan áhuga. Ég vorkenni honum og kyssi leðurkenndar varir hans áður en ég fer. Hann spyr hvenær ég verði tilbúin og bara til að segja eitthvað lofa ég honum að það gerist þegar ég er orðin átján ára, því mér finnst svo skelfilega langt þangað til. Ég finn líka svolítið til með sjálfri mér vegna þess að ég finn ekki til neinnar spennu við faðmlög hans. Ætli ég sé eitthvað óeðlileg að þessu leyti? Helvíti gott hafði Ruth sagt og hún var bara þrettán ára. Það sama sögðu allar stelpurnar í ruslaskotinu, en kannski voru þær að ljúga. Kannski var þetta bara eitthvað sem fólk sagði.
(s. 40-41)