Um bókina
Ævintýri tvíburanna á Spáni er sjálfstætt framhald af Ævintýrum tvíburanna sem kom út 2011. Tvíburarnir, Bjössi og Begga, búa í Blómabrekku í Húnavatnshreppi. Þar hefur heldur betur bæst við fjölskylduna, þar sem aðrir tvíburar hafa nú litið dagsins ljós.Þau fara í eftirminnilegt páskafrí til Spánar með vinum sínum og eldsprækum ömmum. Þar lenda þau í bardaga við spænsku mafíuna, heimsækja Afríku og upplifa margvísleg ævintýri þar sem allskonar fólk kemur við sögu.Sagan lýsir vel kátum og glöðum krökkum í Húnavallaskóla og skemmtilegu lífi þeirra innan skólans og utan hans.
Úr bókinni
Þegar þau ætluðu að fara að kveðja feðgana og þakka fyrir sig, hringdi síminn há Carlosi. Hann svaraði og varð mjög alvarlegur á svipinn. Svo þakkaði hann fólkinu fyrir frábæran dag, en sagðist þurfa að fara að vinna; því miður fyrr en hann hafði haldið. Kristján yrði bara að fara aleinn heim að sofa og hann mætti alveg hitta vini sína á morgun, enda var þá fyrirhuguð hin spennandi Afríkuferð.
Þau kvöddust og börnin sáu að Kristján var áhyggjufullur. Kannski hafði hann áhyggur af pabba sínum sem var að vinna svo hættulega vinnu á öllum tímum. Það var kannski ekki að öllu leyti spennandi að vera lögreglumaður, kannski var bara hættuminna að vera bóndi eða kennari á Íslandi. En kannski var bara allt best.
Börnin voru dauðuppgefin er þau skriðu í bólið. Heiðdís skreið upp í til tvíburanna. Hún geispaði. - Þetta er dásamlegt frí. Það er líka svo gaman að vera fjögur! Nú erum við tvær stelpur og tveir strákar.
Bjössi flissaði. - Þú ert skotin í Kristjáni!
Heiðdís eldroðnaði og barði Bjössa með púða. - Það er ekki satt!
Begga sussaði á þau. - Kristján er fínn. Heiðdís má alveg vera skotin í honum eins og hún vill. Þau eru líka jafngömul. Þú ættir heldur ekkert að segja mikið Bjössi, þú ert sjálfur alveg bálskotinn í Hugrúnu.
Begga fékk kodda í hausinn og þá upphófst hinn mesti koddaslagur þar til Þóra kom og skipaði þeim að fara að sofa. Þau þyrftu að vakna fyrir allar aldir til að fara til Marokkó og þá var eins gott að vera vel fyrir kallaður. Það var sko ekkert grín að fara til Afríku og svo þyrftu börn að passa sig að vera hjá hinum fullorðnu, svo að þeim yrði hreinlega ekki stolið.
Það sljákkaði í óróaseggjunum og þau ákváðu að fara að steinsofa. Líklega var það rétt að það væri betra að hafa óskipta athygli í henni Afríku.
(s.47-49)