Beint í efni

Arfur og umhverfi

Arfur og umhverfi
Höfundur
Vigdis Hjorth
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

     Það að hvorug ykkar skuli hafa spurt mig út í mína sögu hefur valdið og veldur mér enn mikilli sorg.

Það er Bergljót, elsta dóttirin í fjölskyldunni, sem tjáir sig í bréfi til systra sinna. Aldraðir foreldrar þeirra hafa ákveðið að yngri systurnar fái báða sumarbústaði fjölskyldunnar í fyrirframgreiddan arf en Bergljót og bróðir hennar fái peninga í staðinn, miklu lægri upphæð en nemur verðgildi bústaðanna. Erfðadeilurnar ýfa upp gömul sár og hrinda af stað átakamiklu fjölskylduuppgjöri. Það er ekki að ástæðulausu sem Bergljót hefur ekki haft samband við foreldra sína og systkini í 23 ár.

Vigdis Hjorth er einn fremsti samtímahöfundur Noregs og Arfur og umhverfi, sem kom út árið 2016, er hennar þekktasta verk. Bókin hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga, var meðal annars tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og bandarísku National Book Award-verðlaunanna.

Ísak Harðarson þýddi.

Úr bókinni

Ég hringdi í Astrid undir eins. Rödd hennar var alvarleg, öðruvísi en þegar hún hringdi frá Diakon-sjúkrahúsinu. Pabbi hefði ætlað að hleypa tveim pípulagningamönnum inn um áttaleytið um morguninn, en hann hlyti að hafa dottið í tröppunum og slegið höfðinu í steinvegginn, hann náði aldrei að opna. Mömmu, sem enn var í rúminu, þótti skrítið að hún heyrði ekkert í þeim, rödd pabba, raddir píparanna, pípulagningahljóð, hún fór fram úr og fann pabba liggjandi í hrúgu, blóðugan, að því er virtist lífvana á stigapallinum. Hún hljóp niður í anddyrið og opnaði fyrir pípulagningamönnunum og hljóðaði að hún héldi að maðurinn sinn væri dáinn. Pípararnir komu inn og hlupu upp í stigann og lögðu pabba í læsta hliðarlegu, reyndu endurlífgun, munn-við-munn-aðferðina, annar þeirra gerði þetta, hinn hafði fundið leiðbeiningaapp, eftir tuttugu mínútur fór hjarta pabba að slá. Kallað var á sjúkrabíl, pípararnir höfðu hringt eftir honum og mömmu hafði tekist að hringja í Ásu sem heppilega hafði farið á bílnum í vinnuna þann daginn og sneri strax við og kom á Bråteveien á undan sjúkrabílnum sem flutti pabba á Ullevål-sjúkrahúsið, þar sem hann lá nú á gjörgæslunni tengdur við öndunarvél.

Þetta virtist alvarlegt. En um leið hafði verið svo mikið úlfur, úlfur í fjölskyldunni að ég vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við. Þær væru á Ullevål hjá pabba, sagði Astrid, hún, Ása og mamma. Læknarnir vissu ekki hvort heilinn hefði skaðast, þeir ætluðu að setja hann í segulsneiðmyndun eftir nokkra tíma, þá myndu þeir vita meira, þangað til gætu þeir ekki gert annað en að bíða.

(s. 110-111)

Fleira eftir sama höfund