Beint í efni

Borg hinna dauðu

Borg hinna dauðu
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
Sögur útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Föstudagskvöld nokkurt í september yfirgefur hin 19 ára gamla Sigríður Bella Ólafsdóttir heimili sitt við Dragaveg. Hún segir engum hvert hún er að fara. Þegar hún skilar sér ekki heim hringja foreldrarnir á lögregluna. Það er eins og jörðin hafi gleypt dóttur þeirra. 

Tuttugu árum eftir hvarf Sigríðar Bellu finnast mannabein við uppgröft í húsagarði í austurbænum. Hörður Grímsson fer með rannsókn málsins. Í ljós kemur að um líkamsleifar Sigríðar Bellu er að ræða og hrollvekjandi staðreyndir benda til þess að hún hafi verið myrt á vofeiflegan hátt. Það litla sem lögreglan hefur í höndunum um hvarf stúlkunnar á sínum tíma er illa unnin rannsóknarskýrsla. Fljótlega beinast grunsemdir lögreglunnar að ákveðnum einstaklingi en sannanir skortir og fara þarf að öllu með gát því hann má alls ekki fá veður af rannsókninni. Hörður óttast að morðinginn sé ekki hættur og hafi þegar valið sér næsta fórnarlamb. Lögreglan leggur nótt við dag við rannsókn málsins, enda er tíminn senn á þrotum og mannslíf í húfi.

Úr bókinni

  Þegar Tinna er komin úr augsýn rölta þeir af stað til baka í áttina að jeppanum. Hörður tekur stóran sveig framhjá sjómönnunum sem eru að landa úr dagróðrabátnum. Það eru mikil læti í þeim og körin eru þung. Auk þess er bryggjan vinnusvæði og öll óviðkomandi umferð bönnuð. Þeir feðgar eru þarna í leyfisleysi og þurfa því að sýna tillitssemi. Þegar þeir koma að jeppanum er öðrum minni jeppa lagt skammt frá þeim. Það er rauður Suzuki Jimmy, líklega bílaleigubíll. Út úr honum stíga eldri hjón kædd í léttan útivistarfatnað. Þau eru sólbrún og horuð. Hún heldur á plastaðir bók, hann er með myndavél í ól um hálsinn.

  Erlendir ferðamenn, ályktar Hörður, Franskir, giskar hann á. Hann lyftir Pétri upp í barnabílstólinn og festir hann. Síðan gengur hann yfir að bílstjóradyrunum og opnar þær. En hann sest ekki strax undir sýri. Þess í stað stendur hann kyrr og horfir á eftir frönsku hjónunum, sem ganga hægum skrefum eftir planinu framan við frystihúsið. Þau tala saman í hálfum hljóðum og horfa forvitnum augum í kringum sig.

  Herði líður eitthvað furðulega. Það er eins og hann eigi að vita eitthvað en hann veit ekki hvað það er. Hann er dofinn en samt ekki. Hann starir aftan á þessi eldri hjón, eins og hann sé í leiðslu. Síðan áttar hann sig á því að hann er ekki að stara á þau, heldur á frystihúsið. Á dyrnar á frystihúsinu, öllu heldur. Það eru breiðar dyr sem er lokað með rennihurð úr áli. En þær eru opnar, það rétt glittir í rennihurðina og fyrir innan hana er myrkur. Það er eflaust raflýsing inni í frystihúsinu en sólarljósið fyrir utan er svo sterkt að það virðist vera myrkur í rýminu fyrir innan dyrnar. 

  Hörður deplar augunum. Yfir honum er einhver höfgi, eins og hann sé að sofna. Hann lítur niður á bryggjuna, þar sem sjómennirnir hífa enn eitt karið upp úr lestinni á bátnum. Hann lítur aftur á frönsku hjónin. Hún er eitthvað að blaða í bókinni sem hún tók með sér. Hann beinir myndavélinni yfir að fjöllunum handan við fjörðinn og gengur rólega aftur á bak meðan hann stillir fókusinn. Hann bakkar í áttina að dyrunum á frystihúsinu - inn í svartan ramman. 

  Hjartað byrjar að slá hraðar í brjósti lögreglumannsins. það er eitthvað að fara að gerast en hvað?

  Skuggi, hvíslar rödd í eyra hans. Þú ættir að sjá dauðaskugga en þú sérð hann ekki vegna þess að ... 

  Hörður hrekkur við þegar það hriktir og skröltir í einhverju þungu sem hreyfist inni í myrkrinu. Hver einasta taug í líkama hans suðar eins og ljósapera sem er við það að springa. 

  „Nei!“ Hörður hleypur af stað en stoppar síðan í miðju skrefi vegna þess að hann veit að það er of seint að bregðast við.

(s.148-149)

Fleira eftir sama höfund

Nero oceano

Lesa meira

Noir Océan

Lesa meira

Noir Karma

Lesa meira

Húsið

Lesa meira

Úlfshjarta

Lesa meira
hungur

Hungur

Klukkan tifar og einhvers staðar í skuggum borgarinnar leynist sjúk sál sem er drifin áfram af óseðjandi hungri.
Lesa meira
mörgæs með brostið hjarta

Mörgæs með brostið hjarta: Ástarsaga

Mörgæs með mannlegar tilfinningar, ástfangin en um leið full af kvíða, leitar að tilgangi lífsins
Lesa meira