Beint í efni

Dauðinn einn var vitni

Dauðinn einn var vitni
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Hörður Grímsson á ekki sjö dagana sæla. Hann er að rannsaka ólöglegt verðsamráð stórfyrirtækja en saknar þess að rannsaka alvöru glæpi. Einn daginn heyrir hann undarlega yfirlýsingu óþekkts manns í lokuðu talstöðvarkerfi lögreglunnar. „Eftir þrjá daga mun ég hlaupa af stað. Eftir að ég hleyp af stað hafið þið þrjár klukkustundir til að stöðva mig.“

Er um hótun eða gabb að ræða?

Þegar sama yfirlýsingin hljómar í talstöðvarkerfinu daginn eftir fær Hörður leyfi til að reyna að komast til botns í þessu dularfulla máli. Hver er að tjá sig á lögreglu­rásinni og hvað vakir fyrir honum? Hörður hefur lítið sem ekkert í höndunum til að byrja með en leggur nótt við dag við rannsóknina.

Tíminn líður og dagur hinna boðuðu aðgerða rennur brátt upp. Þann dag spáir veðurstofan hamslausum vestanstormi en Hörður óttast að annað og meira en óveður sé í aðsigi.

Getur verið að hryðjuverk séu í uppsiglingu á Íslandi?

Dauðinn einn var vitni er tólfta bókin um rannsóknarlögreglumanninn sérlundaða Hörð Grímsson, sem hefur fyrir löngu skipað sér í hóp allra vinsælustu skáldsagnapersóna samtímans.

Úr bókinni

Þegar Hörður Grímsson gengur brúnaþungur út í nýjan dag er fjögurra stiga frost og svartamyrkur. Hann hafði sofið illa, líklega vegna þess að hann hafði dreymt mjög illa. Hann hafði hrokkið upp með andfælum um þrjúleytið og legið lengi andvaka eftir það - sveittur og með hraðan hjartslátt. Hann hneppir leðurfrakkanum að sér áður en hann þrammar niður steintröppurnar í stigaganginum sem liggur utan á húsinu. Hann svaf yfir sig og er ekki búinn að fá fyrsta kaffibolla dagsins, hvað þá eitthvað að borða. Hann er hvort eð er ekkert svangur en djöfull sem hann þarf á kaffi að halda. Hann er svo syfjaður að hann svimar og er jafnúrillur og dreki sem hefur verið vakinn af þúsund ára blundi.
   Hvað hafði hann verið að dreyma?
   Hörður man það ekki. En það var eitthvað slæmt, svo mikið er víst. Hann gengur að bílaplaninu og aflæsir vinnubílnum með fjarstýringunni. Andardrátturinn breytist í frostgufu. Bílarnir á planinu eru hrímaðir. Hann mun þurfa að skafa ís af framrúðu jeppans. Hörður hryllir sig, síðan lítur hann til vinstri og kemur þá auga á kerruna úr Húsasmiðjunni. Samtímis man hann eftir dálitlu sem hann gleymdi. Timrið er enn á kerrunni - hann bar það aldrei aftur fyrir hús. Hörður lítur á úrið. Klukkuna vantar korter í átta. Hann er nú þegar orðinn of seinn.
   "Fari það í heitasta helvíti ..." Hörður strunsar að jeppanum og sest inn í hann. Hann ræsir átta strokka vélina og stillir miðstöðina á hæsta hita. Framrúðan er vissulega þakin ís, bæði að innan og utan.
   Hörður situr og bíður þess að bíllinn hitni aðiens. Hann er hundfúll út í sjálfan sig fyrir að hafa gleymt að tæma kerruna. Hann verður bara að skjótast heim í hádeginu. Timbrið er líka örugglega gaddfreðið núna - orðið að einum ísklumpi. Hann þyrfti líklega að berja það í sundur, fjöl fyrir fjöl.
   Þessar hugrenningar verða til þess að Hörður man allt í enu eftir drauminum - martröðinni sem hann vaknaði upp af. Hann hafði verið að smíða úr timbrinu. En hann var ekki að smíða kofa heldur hvað?
   Voru það líkkistur? Hárin rísa í hnakkanum á Herði og það er eins og blóðið frjósi í æðum hans.

(s. 42-43)

Fleira eftir sama höfund

Nero oceano

Lesa meira

Noir Océan

Lesa meira

Noir Karma

Lesa meira

Húsið

Lesa meira

Úlfshjarta

Lesa meira
hungur

Hungur

Klukkan tifar og einhvers staðar í skuggum borgarinnar leynist sjúk sál sem er drifin áfram af óseðjandi hungri.
Lesa meira
mörgæs með brostið hjarta

Mörgæs með brostið hjarta: Ástarsaga

Mörgæs með mannlegar tilfinningar, ástfangin en um leið full af kvíða, leitar að tilgangi lífsins
Lesa meira