Um bókina
Dearly Devoted Dexter eftir Jeff Lindsay í þýðingu Ísaks Harðarsonar.
Sálsjúkur morðingi skilur eftir sig slóð fórnarlamba í Miami og handbragð hans er svo tæknilega fullkomið að jafnvel Dexter verður höggdofa. Fljótlega verður ljóst að þörf er á ófreskju til að sigrast á ófreskjunni - en það er hægara sagt en gert án þess að upp komist um myrkraverk Dexters sem er blóðslettufræðingur hjá lögreglunni í Miami en slátrar illmennum í skjóli nætur. Dexter reynir hvað hann getur að vekja ekki grunsemdir hjá kærustu sinni og samstarfsfólki en á meðan leikur morðinginn lausum hala. Mun Dexter ná honum eða verður hann á undan að finna Dexter?
Úr Dexter dáðadrengur
Dyrnar opnuðust upp á gátt og Rita starði á mig. ,,Ó! sagði hún. ,,Dexter.
,,Í eigin persónu, sagði ég. ,,Ég var í nágrenninu og datt í hug hvort þú værir komin heim.
,,Ja, ég - ég var bara að koma inn úr dyrunum. Ég hlýt að vera eins og drusla ... Mmm - komdu inn. Langar þig í bjór?
Bjór; en sú hugdetta. Ég snerti aldrei svoleiðis - en samt, þá var það svo fáránlega normalt, svo fullkomlega skrapp-að-heimsækja-vinkonuna-eftir-vinnu, að jafnvel Doakes hlyti að þykja mikið til koma. Það var einmitt rétti stíllinn. ,,Frábært að fá bjór, sagði ég og elti hana inn í notalegan svalann í dagstofunni.
,,Fáðu þér sæti, sagði hún. ,,Ég ætla rétt að hafa mig svolítið til. Hún brosti til mín. ,,Krakkarnir eru bak við hús, en ég er viss um að þau koma æðandi og gleypa þig þegar þau vita að þú ert kominn. Og hún þaut fram og birtist svo andartaki seinna með bjórdós. ,,Ég kem strax, sagði hún og hvarf inn í svefnherbergið sitt, baka til í húsinu.
Ég settist í sófann og horfði á bjórinn í hendi minni. Ég drekk eiginlega ekki - reyndar er ekki mælt með því að rándýr drekki. Það hægir á öllum viðbrögðum, sljóvgar skynfærin og flækir saman trosið á ermi aðgætninnar, og það hafði mér alltaf fundist einstaklega slæm hugmynd. En hér var ég nú kominn, eins og dári í fríi, til að færa hina mestu fórn með því að afsala mér mætti mínum og láta eins og mennskur maður - svo að bjór var einmitt það rétt fyrir Dexter drykkjufælna.
(40-1)