Beint í efni

Djásn

Djásn
Höfundur
Sif Sigmarsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Ungmennabækur

um bókina

Freyja er komin til Vanheima þar sem gljáfægð háhýsi gnæfa yfir skínandi hreinum götum og íbúarnir lifa við allsnægtir. En lífið í Ríkinu er ekki eins slétt og fellt og virðist á yfirborðinu. Hvað á sér raunverulega stað í Hofinu? Og hverjir eru hinir Fingralausu? Þegar Freyju berst bréf frá vini sem hún taldi vera látinn stendur hún frammi fyrir ákvörðun sem gæti markað endalok heimsálfunnar Íslands. Á hún að heiðra föður sinn, forsetann, eða fylgja eigin samvisku?  Æsispennandi framtíðartryllir þar sem Freyju saga er leidd til lykta.

 

úr bókinni

Kinnhesturinn kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Framan af var andrúmsloftið í opinberu heimsókninni í Miðstöðina jafnnotalegt og sólríkur sumarmorgunn. Meira að segja Lü var í góðu skapi. 

Hvert einasta spor í dagskránni var skipulagt eins og vel æfður dans. Freyja átti að þræða ganga Miðstöðvarinnar ásamt Aðalhirðum héraðanna átta, forsetanum og gestum hans. Valdir einstaklingar úr hópi almennings áttu að fá að fylgjast með. Hún átti að gefa sig að einhverjum þeirra og spjalla við þá. "létt og óformlega," hafði Lü sagt. "Láttu þau halda að þú sért ein af þeim. Það er auðveldara að trúa á eitthvað sem er eins og maður sjálfur." Loks átti hún að kaupa sér fyrsta Djásnið sitt. 

Freyja hafði ekki verið mikið á ferðinni í Vanheimum, pabbi hennar vildi ekki að hún færi út án hans svo mestum tíma eyddi hún í herberginu sínu í Forsetahöllinni. En hún hafði komið í Miðstöðina einu sinni áður. Pabbi hennar hafði sýnt henni hana um leið og þau fóru í bíó. Hann hafði reynt að útskýra fyrir henni hvað Miðstöðin var var en ekkert hefði getað búið hana undir þá sjón sem blasti við þegar hún gekk þangað inn.

Í Miðstöðinni voru verslanir eins langt og augað eygði. Hver búð var gerð úr gleri. Hurðir, gluggar, hillur. Allt var úr gleri. Inngangurinn var margra mannhæða hár. Þakið var kúpt glerhvelfing. Langur gangur lá þvert í gegnum Miðstöðina alla leið að Hofinu hinum megin við hana. Engu var líkara en maður væri kominn inn í einhvers konar draumaheim þar sem fallegir hlutir flutu um í lausu lofti og geislar sólarinnar yljuðu manni án þess að því fylgdi áreitið af veðri og vindum.

Lü hafði sagt að hún mætti velja sjálf búðirnar sem hún skoðaði í opinberu heimsókninni í Miðstöðina. Freyja fikraði sig hikandi eftir hvítu marmaragólfinu og skyggndist inn um gluggana. Í hverri verslun stóð Hirðir vaktina og seldi Djásn sem framleidd voru í héraðinu hans. Hersing af Aðalhirðum og gestum forsetans - Hirðar og embættismenn sem Freyja hafði aldrei séð áður auk Hrundar, Óðar, Iðunnar og Dísu - fylgdi henni hvert fótmál.

"Þú sérð að Miðstöðin hér í Vanheimum er alveg nákvæmlega eins og Miðstöðin hjá ykkur á Surtarvöllum," heyrði hún pabba sinn segja vi ðeinn Hirðinn. "Og svona er hún í öllum héruðunum. Við erum mjög ánægð með hversu nákvæmar eftirmyndirnar af Miðstöðinni og Hofinu í héruðunum eru. Alveg eins og frumgerðin."

Hrund skaust upp við hlið Freyju. Hún uppskar illt augnaráð Lü fyrir. Hann hafði bannað þeim Óði að "hanga of mikið utan í Freyju" meðan á opinberu dagskránni stæði. Freyja væri að sinna "opinberum skyldum sínum" og mætti ekki við neinum truflunum. Hrund lét eins og hún sæi ekki reiðiroðann sem færðist yfir andlit pabba hennar.

(s. 29-31)

Fleira eftir sama höfund

La fille qui jouait avec le feu

Lesa meira

Das dunkle Flüstern der Schneeflocken

Lesa meira

Einu sinni var dramadrottning í ríki sínu

Lesa meira

I am traitor

Lesa meira

Ég er svikari

Lesa meira

The sharp edge of a snowflake

Lesa meira

Moi, Edda, reine des faux plans

Lesa meira

Sjúklega súr saga

Lesa meira

Banvæn snjókorn

Lesa meira