Úr Draugar í sjöunda himni:
Vandræði
“Hér hefurðu hann,” sagði Engilráð um leið og hún skáskaut Gabríel Móra upp að borðinu hjá Debóru og flaug út.
Debóra sat á bak við stórt borð og var að skrifa í bók. Allir veggir voru þaktir hillum og þar stóðu bækur í röðum. Þær voru í ýmsum litum, ein og ein var svört en flestar voru gylltar. Úr þessum sal stjórnaði Debóra Englaskóla og allri fyrstu hæðinni í himnaríki.
“Hvað er það nú, Gabríel minn?” stundi hún og leit á hann gömlum, þreyttum augum.
“Þú veist að ég heiti Gabríel Móri,” svaraði hann.
“Af hverju þessi endemis þrjóska? Ég er búin að margsegja þér að það gengur ekki. Hvernig heldurðu að það væri ef allir hétu tveimur nöfnum í himnaríki?”
“En ég má ekki gleyma Móranafninu,” sagði Gabríel Móri og lét sem hann heyrði ekki í Debóru.
Hún leit spyrjandi á hann.
“Það er lítil stúlka í Hafnarfirði sem veit ekki að ég heiti Gabríel. Hún þekkir bara Móra,” sagði hann og horfði út í loftið fjarrænn á svip. Svo bætti hann við: “Hvernig á hún að finna mig ef ég heiti ekki lengur Móri?”
“Reglur eru reglur og þeim get ég ekki breytt nema með leyfi að ofan. Þér var gefið nafnið Gabríel og tvö nöfn eru bönnuð,” sagði hún ákveðin.
“Ég lofaði þessari litlu stúlku að hitta ömmu hennar og bera henni kveðju. Hún kom hérna skömmu á undan mér,” hélt Gabríel Móri áfram.
“Hvað hét hún?” spurði Debóra og tók fram stóru skráningarbókina.
“Það veit ég ekki ... bara amma hennar Elsu ...” stamaði hann.
“Það heitir enginn bara amma,” svaraði Debóra ergileg og ýtti bókinni frá sér. “Án nafns get ég ekkert fundið.”
“En þú getur þó að minnsta kosti fundið Stínu gömlu fyrir mig,” greip Gabríel Móri fram í. “Hún dó um svipað leyti og ég og fór beint til himna.” Hann var svo ákafur að hann lyftist upp úr stólnum.
“Þá þarf ég að vita hvað hún hét,” sagði Debóra og fitlaði við bókina.
“Nú, Stína gamla,” svaraði hann kátur.
“Hver heldur þú að heiti Stína gamla? Sennilega hefur hún heitið Kristín og þú veist ekkert hvers dóttir hún var ...”
“Já, en hún var í Hafnarfirði,” greip Gabríel Móri fram í.
“Vonlaust mál, hingað koma Kristínar í þúsundatali!” stundi Debóra. “Það er nú alltaf sama sagan með þig, manst ekki einu sinni hvað þú hést sjálfur í lifanda lífi. Hvernig gengur þér að rifja upp nafnið?”
Gabríel Móri sneri upp á gylltan hárlokk, horfði niður og svaraði engu.
“Ég, ég var bara Móri ...” stamaði hann.
“Vitleysa, Móri er afturganga. Það er ekki mannsnafn!” sagði Debóra ákveðin. “Okkur vantar þitt rétta nafn!”
“Af hverju?” spurði Gabríel Móri allt í einu og horfði fast á hana. Eitt augnablik var eins og Debóra vissi ekki hverju hún ætti að svara, svo sagði hún mjög ákveðin:
,,Gabríel Móri. Við höfum vissar reglur hér. Þú nefnir nafnið þitt þegar þú kemur inn í himnaríki og færð svo nýtt engilsnafn. Svona hefur þetta alltaf verið. Við gerðum undantekningu með þig og gáfum þér nafnið Gabríel þótt þú vissir ekki þitt gamla nafn. Þú lofaðir á hinn bóginn að rifja það upp. Nú bíð ég ...” Debóra sat hinum megin við borðið og ýfði vængina svo ákaflega að hvein í.
“Himnaríki er bara allt öðruvísi en ég hélt,” stundi Gabríel Móri grátklökkur. “Ég sem var búinn að hlakka svo til.”
(s. 9-11)
Draugur í sjöunda himni
- Höfundur
- Kristín Steinsdóttir
- Útgefandi
- Vaka-Helgafell
- Staður
- Reykjavík
- Ár
- 1994
- Flokkur
- Barnabækur