Um bókina:
Skáldsagan Draumar á jörðu gerist á fyrri hluta tuttugustu aldar, tíma kreppu og erfiðrar lífsbaráttu á Íslandi. Að auki herjar á landsmenn hvíti dauði, eins og berklarnir voru jafnan kallaðir. En þótt mörgum séu ásköpuð þung örlög mætir fjölskyldan á Sjómannastígnum hörðum kjörum af lífsvilja og lífsgleði, enda hillir undir nýja tíma og nýja von fyrir fátækt fólk. Í Draumum á jörðu heldur Einar Már Guðmundsson áfram að segja sögu þeirra minnisstæðu og litríku persóna sem kynntar voru í metsölubókinni Fótspor á himnum. Hann byggir á sögulegum heimildum en fléttar þjóðtrú, ljóðrænum stemningum og hugarflugi saman þannig að úr verður óvenjulega hrífandi þjóðarsaga. Útgefandi: Mál og menning.
Úr Draumar á jörðu:
Að hugsa sér örlög hliðstæð mínum.
Að fæðast í borg sem er fátæk.
Að fara í sveit og veikjast.
Að koma aftur og deyja.
Samt fær allt dýrlegan bjarma
og er mér til skemmtunar.
...
Á meðan Sæunn föðursystir mín lá fyrir dauðanum á berklahælinu að Vífilstöðum las hún skáldsöguna Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness.
Þegar hún kom að frásögninni um Þórð gamla í Niðurkoti og börnin hans, synina tvo sem drukknuðu í fjarlægum sjó, soninn og dótturina sem hurfu í hina fjarlægu Vesturálfu, sem er lengra burtu en dauðinn, staðnæmdist hún og fór að hugsa.
Hún hugsaði um sjálfa sig og systkini sín, en ekki aðeins út frá þeim börnum Þórðar sem hurfu á vit fjarlægðarinnar, heldur og ekki síður út frá hinum sem urðu eftir í fjarlægðinni sem skilur að fátæk skyldmenni í sama landi.
Í augnabliksleiftri sá hún líf sitt og systkina sinna sem raunar vissu ekki hvað var að vera systkini fyrr en löngu síðar. Þau voru tíu talsins, átta synir og tvær dætur og höfðu búið í kjallaraholunni við Sjómannastíginn áður en þau voru send á ýmsa bæi samkvæmt fátækralögunum sem þá voru í gildi. Þau voru að vísu flest í sama hreppnum, Kambahreppnum, en sú nálægð breytti engu um fjarlægðina.
Þegar Símon fátækrafulltrúi kom fyrst í kjallaraholuna við Sjómannastíginn óð hann bleytukrapann upp að ökklum og horfði á Guðnýju ömmu mína og börnin hennar, yfirvegaður í framan en sorgmæddur í hjarta sínu, eða þar til Ólafur afi minn birtist dauðadrukkinn með blóðhlaupin augu og spurði Símon hvort hann væri fisksali frá Grimsby.
Sæunn var aðeins þriggja ára þegar þetta gerðist og eiginlega of ung til að muna þetta í smáatriðum, en á milli línanna sem hún las leið kjallaraholan, kjallarahelvítið einsog afi kallaði hana, með sagga sinn, kulda og bleytu, fyrir vit hennar.
Þá mundi hún hvað þau systkinin voru oft svöng, hvernig þau æptu og orguðu eins og fuglar í hreiðri, því börn skilja hvorki lögmál hagkerfisins, duttlunga veðráttunnar né misbresti mannanna og þótt þau hefðu skilið hvert smáatriði breytti það engu um sönglistina í maganum, þá lúðrasveit innyflanna sem ærir hugann og leikur sín lög við hvert fótspor sem stigið er.
(60-61)