Myndir eftir Elín Elísabetu Einarsdóttur
Um bókina
Enn er eitthvað dularfullt á seyði í hverfinu. Reiðhjól hverfa úr hjólaskýlinu við blokkina sem Katla, Hildur og Bensi búa í. Krakkarnir taka til sinna ráða og reyna að komast til botns í málinu. Rannsóknin tekur óvænta stefnu en skyldi þeim takast að leysa gátuna, aftur?
Úr bókinni
Hildur dæsti vesældarlega. "Bensi er í sóttkví og við getum ekki hist og heldur ekki talað saman."
"Af því hann missti símann sinn ofan í klósettið," skríkti Katla.
Hildur gaf henni olnbogaskot.
Pabbi leit áhyggjufullur á Hildi. "Æ, hver er smitaður, er það mamma hans?"
"Já, og pabbi hans líka. Hann er í sóttkví hjá mömmu sinni," útskýrði Hildur dauf í dálkinn.
"Er mamma hans mikið veik?" spurði pabbi?
Hildur yppti öxlum og varð skömmustuleg á svipinn. Katla bjargaði henni með því að spyrja pabba: "Hvernig töluðu krakkar saman í gamla daga, sko þegar þú varst lítill og það voru engir símar til?"
Pabbi hló. "Við gátum nú alveg hringt. Það voru öll heimili með heimasíma."
Hildur varð þung á brún. "Þau eru ekki með heimasíma."
Pabbi hugsaði sig um. "Þið getið farið út á svalir og hrópað á milli."
Hildur hryllti sig. "Þá heyra allir í hverfinu hvað við erum að tala um. Það er ekki hægt því við þurfum að leysa glæpamál."
"Glæpamál?" Pabbi klóraði sér í skegginu. "Hvað eruð þið nú að brasa?"
(s. 17-18)