Af bókarkápu
Hlátur og húmor eru mér nauðsynlegri en lyf sjúkum manni. Ég þarf á kærleika að halda eins og súrefni...
Þroskasaga manneskju frá tvítugs til þrítugs. Seinþroskasaga. Mjög seinþroska.
Úr Ég, ef mig skyldi kalla
Ég get ekki ímyndað mér hvað er stefnufastara en að fastna sér konu og ganga í hjónaband.
Þegar ég er í þessum ótímabæru pælingum kynnist ég stúlku. Hún er blaðakona á Alþýðublaðinu og er svo falleg og greind og fyndin að ég ákveð að bjóða henni með mér að horfa á knattspyrnuleik. Portúgalska liðið Benfica með svörtu perluna Eusebio í fararbroddi mætir í Laugardalinn til að spila við Val.
Við setjum upp veðbanka á blaðinu og ég vinn því að ég fann það á mér að leikurinn yrði jafntefli. Fyrir vinningsféð býð ég stúlkunni út að borða, og þá er ég ekki að tala um saltketsbollur á Kjörbarnum. Og ég fer að vera með henni. Ég hef aldrei áður verið á föstu með stúlku. Ég hef aldrei áður verið á föstu með neinum nema sjálfum mér, nema ef vera kynni besta vini mínum í menntaskóla, honum Kristni Ragnarssyni, sem er farinn til Þýskalands að læra arkítektúr og ég sakna þess að hafa engan vin, engan fastan punkt í tilverunni. Það endar á því að stúlkan og ég giftum okkur.
Allir skólafélagar mínir eru búnir að gifta sig. Nema hommarnir. Og þeir sem ekki ganga út. Nú til dags dettur fólki ekki í hug að gifta sig fyrr en það er búið að prófa að vera í sambúð með svo mörgum mismunandi persónuleikum sem allir eru jafnþreytandi hver á sinn hátt, að það nennir ekki lengur að vera alltaf að breyta til.
Þetta er bókmenntalega sinnuð stúlka, stórgáfuð og metnaðarfull. Hún vill mennta sig. Ég segi henni frá því hvað Írland sé dásamlegt og hún slær til og við ákveðum að sækja um skólavist á Írlandi.
Í Dublin eru tveir háskólar, kaþólskur og mótmælenda. Ég vil fara í kaþólska skólann. Mér finnst spennandi að fá að hlusta á Jesúíta. Jesúítar eru berserkir og riddarar Kaþólsku kirkjunnar. Jesúítar taka að sér gáfaða drengi og koma þeim til mennta og svo verða þeir Jesúítar og taka til sín fleiri gáfaða drengi. Ég er afskaplega veikur fyrir þessu hestöflum hugans sem yfirleitt eru kallaðar gáfur.
Fyrsti fyrirlestur sem ég man eftir í kaþólska háskólanum Univesity College Dublin flutti einn gáfaðasti drengur sem Jesúítar hafa nokkurn tímann fundið á Írlandi og alið upp og menntað og heitir faðir Nolan og hann er fyrsti Jesúítinn sem ég fæ tækifæri til að hlusta á.
Í fyrsta tíma byrjar hann á því að spyrja: Hver fékk bókmenntaverðlaun Nóbels núna í ár?
Allir í salnum svara. Samuel Beckett. Einn af mörgum Írum sem hafa hlotið þessi verðlaun fyrir orðfimi.
Og í fyrra?
Yasunari Kawabata, að sjálfsögðu.
Þar áður?
Allflestir svara, Miguel Angel Asturias, og þannig koll af kolli frá ári til árs allt aftur til Williams Butlers Yeats árið 1923 og gott ef það er ekki einhver sem man eftir Sully Prudhomme 1901.
Nú brosir faðir Nolan og horfir ástúðlega yfir hinn bókelska nemendahóp og spyr?
En hver fékk nóbelsverðlaun í eðlisfræði í ár?
Ekkert svar.
Eða læknisfræði?
Dauðaþögn.
Hagfræði, bara einhver, einhvern tímann?
Þögn.
Jesúítinn glottir eins og kötturinn í Lísu í Undralandi og við bíðum svars sem lætur á sér standa.
Svo segir hann háðslegum rómi: Ah, this is the tragedy of Ireland. In a nutshell. (Þetta er kjarninn í harmsögu Írlands.)
Ég tek það svo að hann sé að fræða nemendur sína um að bókvitið verði ekki í askana látið en hef ekki uppburði í mér til að ávarpa mann sem stendur hundrað greindavísitölustigum fyrir ofan mig.
(s. 39-41)