Beint í efni

Einmunatíð og fleiri sögur

Einmunatíð og fleiri sögur
Höfundar
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Höfundur: George Mackay Brown

Um bókina

Í þessu smásagnasafni lýsir Orkneyjaskáldið George Mackay Brown með eftirminnilegum hætti lífi og örlögum fólks sem oftar en ekki býr við kröpp kjör og heyir harðvítuga baráttu við náttúruöflin.

Sögusviðið er eyjarnar fyrir norðan Skotland og margt minnir óneitanlega á Ísland fyrri tíma, þegar sjómenn og kotbændur unnu hörðum höndum til að framfleyta sér og sínum.

Úr Einmunatíð

Til eru þeir sem hafa mikla ánægju af því að segja fyrir um endalok heimsins. Það er eins konar tómstundaiðja hjá þeim. Þeir sitja með blýant og blaðsnifsi, og þeir reikna út, með því að hagræða sumum af hinum illskiljanlegu táknum Opinberunarbókarinnar, daginn þann og stundina þegar dómurinn mun falla. Þeir hafa hingað til ekki haft rétt fyrir sér, en þeir halda áfram að reyna.
  Tommi frændi minn er einn þessara manna. "Gamli spámaðurinn" er hann kallaður í smiðjunni. Svo mig undraði ekki þegar hann fyrir tveimur sunnudögum síðan hvíslaði í eyra mér: "Á fimmtudaginn, tíu mínútur yfir tvö eftir hádegi." Við höfðum átt mjög ánægjulegt kvöld við arineldinn, talað um skipsskaða og umrenninga og stormviðri. Ölið hennar Bellu frænku hafði verið í ágætis standi. Loksins, er leið að miðnætti, hafði ég staðið á fætur til að halda heim á leið, og skyndilega var allur galsinn horfinn úr Tomma og hann sagði: "Á fimmtudaginn, tíu mínútur yfir tvö." Bella kvakaði einhver andmæli í bakgrunninum. Hún tekur ekki undir alla þessa vitleysu.
  Það geri ég ekki heldur og ég gleymdi öllu um þetta þar til á miðvikudagskvöldinu, þegar ég kom við hjá þeim á kotbýlinu með nokkrar ýsur sem ég hafði veitt fyrir utan Háey seinnipart dagsins. Bella vísaði mér inn í tágastólinn við eldinn og setti spilkomu af öli í hendur mér. Á meðan hún slægði fiskinn sagði hún mér, í einum skefjalausum slúðurflaumi, hvaða pör ætluðu að gifta sig og hvaða stúlkur væru að eignast börn og hvaða piltar hefðu verið sektaðir fyrir að vera á hjólunum sínum í leyfisleysi.
  "Hvar er Tommi?" spurði ég.
  Síðasti ýsusporðurinn flaug af undan skærunum hennar. "Hann er úti í skúr," sagði hún biturlega, "að undirbúa fimmtudaginn."

(101-102)

 

Fleira eftir sama höfund