Úr Flateyjargátu:
Þau gengu inn í kirkjuna. Kjartan staðnæmdist um fimm skref frá kassanum og tók upp vasabókina sína og penna. Jóhanna lagði opna töskuna frá sér á einn kirkjubekkinn og losaði festingarnar af kassanum.
Nokkrar flugur birtust um leið og hún tók lokið af en þær virtust fjörlitlar og lentu fljótlega á gólfinu. Mixtúran sem Grímur hafði hellt í kassann hafði gert sitt gagn.
Jóhanna stóð lengi hreyfingarlaus við kassann og horfði þegjandi á innihaldið.
“Karlmaður af fatnaðinum að dæma,” sagði hún loks.
“Já, við vitum það,” svaraði Kjartan.
Hún leit á hann. “Það skiptir ekki máli hér hvað þið vitið. Þú skrifar bara niður allt sem ég segi. Þetta verður skýrslan mín sem héraðslæknis.”
Kjartan fór hjá sér. Hann hafði ekki gert sér grein fyrir að rannsóknin var hafin.
Hún hélt áfram að virða Kjartan fyrir sér.
“Ég man eftir þér úr Menntaskólanum,” sagði hún loks.
Hann hrökk við og leit kvíðinn upp en gat ekki greint nein svipbrigði á bak við grímuna. Hann kom andliti hennar ekki fyrir sig. Hún hlaut að hafa verið í yngri árgangi en hann kom sér ekki til að spyrja. Þau horfðust í augu nokkra stund en síðan leit hún aftur í kistuna.
“Corpus decompositium,” sagði hún.
“Fyrirgefðu?” Kjartan skildi ekki latínuna.
“Líkið er rotið,” sagði hún þá.
Það er nokkuð ljóst, hugsaði Kjartan en sagði ekkert og skrifaði þetta á blaðið.
Jóhanna tók föstum tökum í úlpuna og buxurnar og sneri líkinu við með einni kröftugri hreyfingu. Nokkrar flugur til viðbótar vöknuðu við raskið og flugu upp úr kassanum.
“Engar leifar af skinni eða holdi í andliti, né heldur af augum,” sagði Jóhanna og tók einhver áhöld upp úr töskunni sem hún notaði til að spenna kjálkana á höfuðkúpunni í sundur.
“Tennur óskemmdar en slitnar. Nokkrar vel gerðar gullfyllingar. Maður líklega kominn nokkuð yfir miðjan aldur, nógu vel stæður til að hafa ráð á góðum tannlækni.”
Hún skoðaði höfuðkúpuna undir hettunni.
“Leifar af gráu hári.”
Hún gekk að hinum enda kassans og leit á skóna. “Vandaðir gönguskór úr leðri. Reim vantar í skó á hægri fæti.
” Næst skoðaði hún hendurnar. “Enginn hringur á fingri.”
(s. 39-40)