Ursula Wölfen : Fliegender stern
Úr Fljúgandi stjörnu:
Okkur langar til þess að heyra eitthvað um hvíta manninn, sagði hann.
Hvað langar ykkur til að heyra um hann?
Á hverjum degi ríða feður okkar á veiðar og alltaf koma þeir tómhentir heim. Mæður okkar geta ekki þurrkað neitt annað en ber og fisk fyrir veturinn. Af hverju tók hvíti maðurinn alla vísundana?
Alsjáandi auga lagði pípuna við hlið sér í grasið og spennti greipar í kjöltu sér. Hann sagði:
Þegar andinn mikli skapaði heiminn, skapaði hann fyrst lönd og fjöll. Í fjöllunum lét hann spretta upp læki og fljót og veitti þeim í vötnin og stóra hafið sem aðskilur löndin. Þá skapaði hann öll dýr, fiska og fugla, hesta og hunda, vísunda, refi, bjóra og öll dýr sem þið þekkið. Síðast skapaði hann manninn.
Já, sagði Fljúgandi starna, Það hefur móðir mín sagt mér.
Alsjáandi auga kinkaði kolli. En andinn mikli skapaði ólíkt fólk. Og öllu þessu fólki gaf hann land til þess að búa í, veiðidýr og tungumál. Hann skapaði okkur indíána með rauðbrúna húð og svart hár, hann gaf okkur þetta land og í munn okkar lét hann indíánamálið. Hann bjó líka til öðruvísi fólk með ljósa húð og ljóst hár, gult fólk og meira að segja fólk með alveg svarta húð. Öllum gaf hann land og eigið tungumál. á milli lands indíánanna, hvítu, svörtu og gulu mannanna skapaði hann risastórt vatn.
(s. 54-55)