Beint í efni

Grimmd

Grimmd
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Skáldsögur


Um bókina:



Hörður Grímsson rannsakar alvarlega líkamsárás á glæpaforingja en árásarmaðurinn, dópsalinn William Smári Clover, gengur laus. Smári er því bæði hundeltur af lögreglu og misindismönnum í hefndarhug.



Á sama tíma rænir siðblindur maður mánaðargamalli dóttur sinni og ætlar með hana úr landi. Móðirin örvæntir þegar kerfið bregst en kallinu er svarað úr óvæntri átt. Leikurinn berst út á land og fyrr en varir streyma undirheimahrottar út á þjóðveginn og Hörður fylgir þeim fast á hæla – ungbarn er í lífshættu og tíminn að renna út.



Úr Grimmd:



„MAMMA-A!“



Smári gengur inn í eldhúsið, náfölur og hálfstjarfur af skömm, sýgur upp í nefið og klæðir sig aftur í bolinn og nælonjakkann. Inga sendi hann niður og bað hann að bíða þar. Ofan af efri hæðinni berast háværar raddirnar í mæðgunum, eins og hvassir hnífar sem skera sundur loftið.



„Hver er þessi strákur, mamma?“



„Æ, enginn … Hann er bara vinur minn.“



„Vinur þinn? Hann var að reykja í herberginu mínu! Hann er búinn að eyðileggja peysuna mína! Sérðu náttborðið mitt? Hvað var hann að gera hérna inni, mamma?“



„Hann á erfitt.“



„Á hann erfitt? Þú átt erfitt! Ég skal sko segja pabba frá þessu!“



Smári rennir upp jakkanum og lítur svo á diskinn og glasið á eldhúsborðinu. Á diskinum er ennþá helmingurinn af samlokunni og glasið er háflfullt af ávaxtasafa. Hann er enn bæði svangur og þyrstur en maginn er í hnút, honum er óglatt og þó að munnurinn sé þurr getur hann ekki hugsað sér að drekka neitt.



„Þú þarf ekki að segja pabba þínum frá þessu. Ég kaupi nýja peysu. Ég kaupi nýtt náttborð.“



„Það fæst ekki svona peysa á Íslandi, mamma! Hún er ónýt! Pabbi gaf mér hana! Hver er þessi ógeðslegi strákur?“



„Sandra mín, Sandra …“



„Er hann ekki örugglega farinn? Ég er hrædd við hann! Ég segi pabba frá þessu!“



Smári kemur auga á svartan hnífastokk á eldhúseyjunni. Í stokknum eru ótal hnífar með svörtu skafti, stórir og smáir. Hann gengur að eyjunni og dregur upp stærsta hnífinn í stokknum. Það er búrhnífur með breiðu blaði og hvössum oddi, svo beittur að það syngur í egginni.



„Nei. Þú gerir það ekki!“



„Víst!“



Smári dregur upp vinstri jakkaermina og snýr lófanum upp. Á svæðinu fyrir ofan úlnliðinn eru brunablettir eftir sígarettuglóð og ótal ör, bæði gömul og ný. Hann leggur hnífseggina á framhandlegginn og sker snöggt skáhallt yfir hann.



„Nei!“



„Víst, mamma! Þú ert full, þú ert ógeð! Ég hata þig! Hata, hata hata! Ég ætla að hringja í pabba núna!“



Það heyrist hávær smellur þegar lófi skellur á vanga.



Smári leggur búrhnífinn frá sér. Blóðið streymir taktfast upp úr skurðinum á handleggnum og rennur hratt niður hann, fyrst í mjóum bunum en svo hægir fljótlega á rennslinu því skurðurinn er ekki það djúpur.



Dökkrauðir blóðdropar skella á ljósum gólffísunum. Hann togar ermina niður og flýtur sér fram  í litla anddyrið hjá bakdyrunum.



Ofan af efri hæðinni berst grátur, ekkasog og lágvært hvísl.



Hann smeygir sér í skóna, skilur pokann með kókómjólkinni og kúmenkringlunni eftir á gólfinu og flýtir sér út. Hann lokar dyrunum varlega á eftir sér og hraðar sér síðan niður tröppurnar og fyrir húshornið, fram hjá bílskúrnum, eftir endilangri innkeyrslunni og út á gangstéttina framan við húsið.



Hann lítur um öxl og sér dökka dropaslóð á grárri steinsteypunni. Jakkaermin er gegnblaut, kitlandi sársaukinn dofnar, hjartslátturinn hægist og undirfurðuleg hitatilfinning fyllir hann að innan og streymir líkt og loðinn reykur upp í höfuðið.



Sólin er björt, hvít eins og blik á hnífsblaði. Gangstéttin er mjúk, hann er úr draumkenndum svampi og svífur áfram. Augun eru full af ljósi, í eyrunum er þægilegt suð og blóðlausar varirnar kippast til og brosa sem snöggvast út í annað.



(87-9)


Fleira eftir sama höfund

Nero oceano

Lesa meira

Noir Océan

Lesa meira

Noir Karma

Lesa meira

Húsið

Lesa meira

Úlfshjarta

Lesa meira
hungur

Hungur

Klukkan tifar og einhvers staðar í skuggum borgarinnar leynist sjúk sál sem er drifin áfram af óseðjandi hungri.
Lesa meira
mörgæs með brostið hjarta

Mörgæs með brostið hjarta: Ástarsaga

Mörgæs með mannlegar tilfinningar, ástfangin en um leið full af kvíða, leitar að tilgangi lífsins
Lesa meira

Ísrael: Saga af manni

Lesa meira