Beint í efni

Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir

Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir
Höfundur
Brynhildur Þórarinsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Barnabækur

Um bókina

Myndskreytingar: Bergrún Íris Sævarsdóttir.

Hvernig litist þér á sumarfrí í eyðiþorpi – þar sem ekkert nammi fæst? Nei takk! hefðu systkinin Gunnar og Gyða sagt einum rómi. Þau voru bara ekki spurð. Sem betur fer rekast þau á dularfullu skepnuna Gulbrand Snata og það var líka gott að þau tóku með sér talstöðvar. Þá geta þau njósnað um mömmu og geimverurnar. Svo birtist bréfið frá kafteini Kolskeggi …

Úr bókinni

Hræðileg uppgötvun

Mamma lagði við gula húsið og krakkarnir stukku út úr bílnum. Gunnar var fyrstur að grindverkinu. Hann ýtti harkalega á hliðið sem opnaðist með hávæm ískri áður en það datt af hjörunum. Um leið skaust ferfætt skepna upp úr háu grasinu og flúði út á götu. Gunnari varð svo um að hann æpti upp yfir sig.

Gyða skellihló að honum. - Ertu virkilega hræddur við hund?

Gunnar sendi henni illt augnaráð. - Nojts, mér brá bara. Svo var þetta ekki hundur heldur köttur.

Gunnar er hræddur við hu-und, söng í Gyðu.

Mamma smalaði börnunum áfram. - Svona, svona, reynið nú að rífast ekki í nokkrar mínútur. Hún ýtti þeim á undan sér að útidyrunum. Þau voru án vafa við rétt hús því ofan við dyrnar stóð „Lukkubakki“ á útskornu viðarskilti. Mamma dró upp lykilinn sem hún hafði fengið þegar hún borgaði húsið. Hún opnaði dyrnar og krakkamir eltu hana inn. Lyktin sem tók á móti þeim var þung og ryk í loftinu. - Er þetta ekki dásamlegt? sagði mamma glaðlega en fékk ekki önnur svör en hnerra.

Gyða og Gunnar gengu hóstandi um húsið á eftir mömmu sem virtist svífa um af hamingju. - Sjáið þið bara, við fengum gömul húsgögn í kaupbæti ... sófa, borð, hillur ... hún þaut á milli herbergja. Anddyrið var lítið en þó voru þar nokkrir snagar á vegg. Inn af anddyrinu var hol og stofa á hægri hönd en lítið eldhús til vinstri. Við hliðina á eldhúsinu var svefnherbergi með einu rúmi, náttborði og kommóðu. Virðulegt, dökkt skrifborð stóð upp við einn stofuvegginn. Í stofunni var einnig bláleitur sófi og tveir stólar í stíl, og kringlótt sófaborð á milli þeirra.

- Hver átti eiginlega þetta hús? spurði Gyða sem furðaði sig á innbúinu. - Af hverju er allt þetta dót hérna?

Það var víst allt skilið eftir þegar gömlu hjónin fóru á elliheimili, útskýrði mamma og teiknaði mynstur í rykið á sófaborðinu. - Það eru mörg ár síðan. Þau voru barnlaus og enginn til að taka við húsinu. Mamma dró andann djúpt: - En sú hundaheppni að detta niður á þetta dásamlega hús. Hún staldraði við og dáðist brosandi að rykskrautinu sínu, dúllulegum rósum og hjörtum. - Lukkubakki, hér verðum við örugglega lukkuleg.

Krakkamir fundu rykið streyma frá dúllurósunum og fylla lungun.

Mamma bar farangurinn inn og fór með ferðatöskuna sína inn í svefhherbergið. Gunnar svipaðist um í litlu herberginu. - Hvar eigum við Gyða að sofa? spurði hann hikandi.

- Þarna! Mamma benti upp í loft. - Það er svefnloft hérna, kíkið á það.

Gyða kom fyrst auga á mjóa stigann sem festur var við stofuvegginn. Hún klifraði varlega upp og skimaði yfir loftið. Gólfflöturinn var ekki stór og stærsti hlutinn undir súð. Fjórar dýnur á gólfinu voru einu húsgögnin, ef húsgögn skyldi kalla. Gyða prílaði upp á svefnloftið og gægðist út um lítinn glugga á gaflveggnum. Hún sá niður í fjöru og langt út á haf. Gyða opnaði gluggann og leyfði svalri hafgolunni að berast inn. Hún dró djúpt að sér andann og fann ilminn af söltu hafinu.

Gunnar klifraði upp til hennar. - Pant sofa hérna, hrópaði hann og fleygði sér á þykkustu dýnuna. Um leið gaus upp rykský sem fyllti svefnloftið. Lappalöng kónguló skreið undan dýnunni og faldi sig undir þeirri næstu. Á eftir henni trítluðu að minnsta kosti tuttugu vinkonur hennar.

- Mamma! kölluðu systkinin hátt.

 

Fleira eftir sama höfund

Óskabarn : bókin um Jón Sigurðsson

Lesa meira

Blávatnsormurinn

Lesa meira

Áfram Óli

Lesa meira

The Saga of Njáll

Lesa meira

Af Artúri konungi, Gunnari á Hlíðarenda og Fróða Bagga: Fornsagnamatreiðsla fyrir börn

Lesa meira

Allt í lagi Reykjavík

Lesa meira

Af lopakörlum og prjónakerlingum

Lesa meira

Byrgir söguþekkingin sýn? Sýning á bronsstyttum þriðja ríkisins

Lesa meira