Úr Haltu mér fast!:
Þetta er hárrétt hjá þér, sagði Hallur og fór að hjálpa henni við að festa á sig blýbeltið, sundfitjar, grímu og vettlinga sem féllu þétt að búningnum svo vatn kæmist hvergi á milli.
Þegar hann hafði athugað vandlega eigin útbúnað tók hann undir handlegg hennar og gekk að borðstokknum.
Stóra stundin var komin!
Næsta skref var að stökkva út í kaldan sjóinn. Hún fann fyrir hnút í maganum og hjartað sló miklu örar en venjulega.
Samt var hún ekkert hrædd.
Bara spennt.
Best er að láta sig detta aftur á bak, sagði Hallur.
Súsí sneri bakinu að sjónum, hélt fast um grímuna með báðum höndum, hallaði sér varlega út fyrir borðstokkinn og lét sig falla.
Hún skall beint á höfuðið í sjóinn. Henni brá við höggið, fór að hósta og kreppti sig ósjálfrátt saman um leið og hún sökk niður í djúpið þar sem þögnin ríkti.
Hún hóstaði aftur og fann hvernig munnstykkið spýttist alveg óvænt út úr henni.
Hvað var að gerast?
Hjartað tók að hamast í brjósti hennar.
Súsí hélt niðri í sér andanum og leitaði ákaft að lunganu með hægri hendinni. Það hlaut að vera þarna einhvers staðar.
Skyndilega sá hún að Hallur var kominn. Hann greip í hana, sneri andliti hennar að sér og beinlínis tróð munnstykkinu upp í hana aftur.
Hún blés frá sér og reyndi síðan að anda rólega.
Þegar Súsí hafði jafnað sig fór hún að horfa í kringum sig.
Hún velti sér á bakið og sá að þau voru enn skammt frá yfirborðinu. Fyrir ofan sig, lítið eitt til hliðar, sá hún undir kjöl trillunnar.
Henni fannst það undarleg tilfinning að liggja svona á kafi, finna sjóinn þrýsta búningnum að líkama sínum frá öllum áttum og heyra ekkert nema blásturshljóðið þegar hún andaði frá sér út um munnstykkið.
Hallur starði stöðugt framan í hana eins og til að kanna hvort ekki væri allt í lagi.
Hún kinkaði ósjálfrátt kolli.
Þá lyfti hann vinstri handleggnum og sýndi henni á dýptarmæli sem var bundinn eins og úr rétt ofan við úlnliðinn.
Mælirinn sýndi að þau voru þrjá metra frá yfirborðinu.
Hann gaf henni merki um að fara dýpra. Svo setti hann undir sig höfuðið og synti niður á við með fitjunum.
(s. 57-58)