Um þýðinguna
Philip Roth er einn fremsti núlifandi rithöfundur Bandaríkjanna. Hann á að baki langan og stormasaman feril en þykir hafa náð hæstum hæðum á undanförnum tíu árum. Söguhetjan í Hinni feigu skepnu (The Dying Animal) er menningarrýnirinn David Kepesh, andstæðingur hjónabands og talsmaður frjálsra ásta. Hann er á sjötugsaldri þegar hann fellur fyrir tuttugu og fjögurra ára stúlku af kúbverskum ættum og allt fer á annan endann í lífi hans. Rúnar Helgi þýddi og ritar eftirmála.
Úr Hinni feigu skepnu
Ég kynntist henni fyrir átta árum. Hún var nemandi minn. Ég er ekki kennari í fullu starfi lengur, strangt til tekið kenni ég alls ekki bókmenntir - í mörg ár hef ég bara kennt þetta eina námskeið, vinsæla málstofu um bókmenntarýni undir yfirskriftinni Hagnýt gagnrýni. Ég laða að mér fjöldann allan af kvenstúdentum. Af tveimur ástæðum. Af því að greinin býður upp á áhugaverða blöndu af gáfumannaljóma og fjölmiðlabjarma og af því að þær hafa heyrt mig gagnrýna bækur í útvarpi eða séð mig fjalla um menningu í sjónvarpi. Eftir að hafa verið menningarrýnir í sjónvarpsþætti undanfarin fimmtán ár er ég orðinn allþekktur hér um slóðir og af þeim sökum flykkjast þær á námskeið hjá mér. Ég gerði mér ekki grein fyrir því strax að framkoma í sjónvarpi í tíu mínútur á viku gæti hrifið þessa stúdenta jafn mikið og raun ber vitni. En frægð mín er ómótstæðileg fyrir þær, hversu takmörkuð sem hún kann að vera.
Ég er afar veikur fyrir kvenlegri fegurð, eins og þú veist. Allir hafa sinn veikleika og þarna er minn Akkilesarhæll. Um leið og ég sé kvenlega fegurð er ég sleginn blindu á allt annað. Strax í fyrsta tíma veit ég hvaða stúlka höfðar til mín. Það er til saga af Mark Twain þar sem hann hleypur undan tudda og leitar loks athvarfs upp í tré. Tuddinn horfir upp til hans og hugsar: Þú ert mitt kjöt, herra minn. Ja, þetta herra minn umbreytist í unga dama þegar ég sé þær í tímum.
(s. 7 - 8)