Beint í efni

Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans

Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans
Höfundur
Haruki Murakami
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan Shikisai o motanai Tazaki Tsukuru to, kare no junrei no toshi eftir Haruki Murakami í þýðingu Ingunnar.

Á menntaskólaárunum átti Tsukuru Tazaki fjóra bestu vini. Eftirnöfn þeirra allra innihéldu einhvern lit, nema Tazaki. Hann hét engum lit. Frá upphafi fannst honum hann því örlítið útundan.

Dag nokkurn tilkynntu vinir hans að þau vildu hvorki sjá hann né heyra nokkurn tíma aftur. Allar götur síðan hefur Tsukuru verið eins og svefngengill og engum tengst vinaböndum. Þegar hann kynnist Söru fyllist hann löngun til þess að gera upp fortíðina og komast að því hvað gerðist.

Úr bókinni

„Mér þykir það leitt en ég verð að bijða þig að hafa aldrei framar samband við neitt okkar,“ sagði Ao stuttaralega og formálalaust. Ekkert „Hæ!“ eða „Hvernig hefurðu það?“ eða „Langt síðan við höfum heyrst!“ Mér þykir það leitt var eina kveðjan sem hann lét í té.

Tsukuru dró djúpt andann og endurtók orð Aos í hljóði til að átta sig betur á þeim. Hann reyndi að lesa í tilfinningarnar að baki þeim, en orðin voru einso g upplestur á formlegri tilkynningu. Ekkert pláss fyrir tilfinningar.

„Ef þið viljið öll að ég hætti að hringja mun ég að sjálfsögðu verða við því,“ svaraði Tsukuru. Orðin hrutu nánast sjálfkrafa af vörum hans. Hann hafði reynt að tala eðlilega, rólega, en röddin var eins og í ókunnugum manni. Rödd einhvers sem bjó langt í burtu og hann hafði aldrei hitt (og myndi líklegast aldrei hitta).

„Já, ekki hringja,“ sagði Ao.

„Ég hef ekki í hyggju að geraneitt sem er fólki á móti skapi,“ sagði Tsukuru.

Ao gaf frá sér hljóð, hvorki andvarp né til samsinnis.

„En ef það er mögulegt vildi ég gjarnan vita ástæðuna fyrir þessu,“ sagði Tsukuru.

„Ég get ekki sagt þér neitt um það,“ svaraði Ao.

„Hver getur það þá?“

Gríðarstór steinveggur hlóðst upp. Þögnin ríki hinum megin. Tsukuru heyrði dauft hljóð þegar Ao andaði í gegnum nefið. Hann sá fyrir sér flatt, holdmikið nef Aos.

„Hugsaðu aðeins málið og þá áttarðu þig á því,“ sagði Ao.

Tsukuru var orðlaus. Hvað var hann að tala um? Hugsa málið? Hvaða mál? Ef ég hugsa mikið meira um nokkurt mál hætti ég að vita hver ég eg.

„Það er leiðinlegt að þetta skyldi fara svona,“ bætti Ao við.

„Er þetta skoðun ykkar allra?“

„Já. Okkur finnst þetta öllum leiðinlegt.“

„Segðu mér – hvað gerðist?“ spurði Tsukuru.

„Þú ættir að spyrja sjálfan þig að því,“ sagði Ao. Tsukuru greindi bæði sorg og reiði í rödd hans, en aðeins í augnablik. Áður en hann gat hugsað upp svar lagði Ao á.

(28-9)

Fleira eftir sama höfund

Norwegian Wood

Lesa meira

Eftir skjálftann

Lesa meira