Beint í efni

Högni

Högni
Höfundur
Auður Jónsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Högni starfar á Framtíðarstofnun við að meta áhrif loftslagsbreytinga á umhverfi og skipulag Reykjavíkur. Í einkalífinu hefur aftur á móti hallað undan fæti eftir erfiðan skilnað. Hann leitar svölunar í faðmi kvenna á börum bæjarins – og skyndilega er Högni orðinn umdeildasti maður landsins og er knúinn til að horfast í augu við sjálfan sig.

Úr bókinni

   Hann gætti sín á hálkublettinum undir fönninni þangað til hann sá vagninn birtast og hljóp af stað - en skrikaði fótur og skall á annað hnéð. Sársaukinn nísti. Gat kom á buxurnar, sandur límdist við blóð. Andskotinn! Það átti ekki af honum að ganga! Hann hristi af sér verkinn og veifaði vagninum sem hinkraði þar til hann hafði staulast inn.
   Högni haltraði inn í vagninn, feginn að finna ylinn inni í farartækinu sem rumdi eins og dýr. Hann kveinkaði sér þegar hann borgaði og virti fyrir sér kærustupar í fremsta sæti, sem honum heyrðist vera pólskt, leita hlýju í faðmi hvors annars. Vagninn var að öðru leyti tómur en af vana leitaði hann aftast. Á leiðinni gretti hann sig af sársauka við að stíga í fótinn.
   Þá heyrðist kallað: Oj, karlinn er að gretta sig framan í okkur!
   Hann skotraði augunum að aftasta sætinu og sá þrjár stelpur gretta sig leikrænt framan í hann; á að giska þrettán eða fjórtán ára, í samskonar dúnúlpum, afskræmdu þær andlitið. Það hvarflaði að honum að útskýra að hann hefði ekki verið að gretta sig framan í þær en óx það í augum. Tilraun hans til að brosa braust út eins og ný gretta svo þær geifluðu sig ennþá meira og þjöppuðu sér hver upp að annarri. Allar limalangar eins og folöld en andlitið ennþá barns. Samt voru þær með varagloss og maskara, bronsaðar eins og nýkomnar af sólarströnd í vetrinum.
   Þær virtust ekki finna fyrir kuldanum með úlpurnar flaksandi þar sem þær klesstust hver upp við aðra og hann var við það að setjast þegar ein þeirra ullaði á hann.
   Ég var ekki að gretta mig framan í ykkur, muldraði hann. Ekki láta svona!
   Lygari! sagði þá önnur svo hvellt að hann kipptist við og flýtti sér að setjast með hita í vöngum. Ýmislegt mátti um hann segja en ekki væna hann um lygi!
   Þegar Högni var sestur heyrði hann skríkjurnar klauma í bakgrunni, svipað og hljóðmynd í leikriti. Tístið beindist að honum. Ein stelpan hafði spottað lokk sem stóð upp úr hárinu á honum. Sjáið klikkhausinn, hann er með skalla og samt hár sem stendur upp! Hárið kemur upp eins og pálmatré á eyðieyju! Önnur bætti við: Það vex eins og nefið á Gosa upp úr skallabletti. Hin greip inn í: Því hann er sko alltaf að ljúga. Ruglaður gaur! Grettir sig framan í fólk!
   Orð hennar nægðu til að hinar tvær byrjuðu að hlæja að honum sem fann að hann titraði aðeins. Brátt varð hláturinn stjórnlaus. Lítill lygakall grettir sig í strætó. Hæ, Hobbiti! tísti ein og hinar hikstuðu af hlátri.
   Hann leit snöggt aftur fyrir sig meðan hláturinn stigmagnaðist. Ótti braust fram af slíkum ofsa að hann snöggstirnaði. Hvaðan kom þetta?
   Þetta voru bara stelpur að fíflast. Hann reyndi að draga andann djúpt. Sundlaði skyndilega af hræðslu, máttvana en um leið þaninn af spennu eins og hann væri með tigrísdýr á hælunum. Hann einbeitti sér að verkjunum í hnénu til að útiloka hin óþægindin. Vanlíðanin sem hláturinn tendraði með honum var óskiljanleg, oft hló hann hæst að sjálfum sér.
   Nú mátti hann sín einskis, bara varð að lifa af.
   Hláturinn endurómaði truflunina í öllu.
   Hvað var að gerast?

(s. 48-49)

Fleira eftir sama höfund

Daarginds

Lesa meira

Folket i kjällaren

Lesa meira

Ósjálfrátt

Lesa meira

Fólkið í kjallaranum

  
Lesa meira

Litli lögfræðingurinn

Lesa meira

Stjórnlaus lukka

Lesa meira

Algjört frelsi

Lesa meira

Vetrarsól

Lesa meira

107 Reykjavík

Lesa meira