Beint í efni

Hrafnskló

Hrafnskló
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
Sögur útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Unglingabækur

Um bókina

Kinga Jedynak er sextán ára. Pabbi hennar lést í vinnuslysi þegar hún var tólf ára og síðan þá hefur mamma hennar unnið myrkranna á milli til að framfleyta þeim. Kinga var rekin úr Hólabrekkuskóla fyrir ofbeldi og á kærasta sem er dópsali. En hún er enginn vitleysingur.
Arnaldur Barkarson er fimmtán ára. Hann er nýbyrjaður í Seljaskóla, eins og Kinga, en ólíkt henni er hann hvorki talinn hættulegur né töff. Arnald dreymir um að falla í kramið hjá vinsælu krökkunum í skólanum, sem eru á kafi í leiknum Ravens Claw. Hann byrjar að spila og spennandi heimur opnast.
Þau Kinga og Arnaldur kynnast í gegnum leikinn og með þeim tekst vinátta sem breytir lífi þeirra beggja. Bæði þurfa þau sárlega á samherja að halda, því þau hafa eignast hættulega óvini. Andstæðingarnir svífast einskis og hættur leynast við hvert fótmál.

Úr bókinni

Hádegishlé. Arnaldur sér að Borgar, Sóldís og vinir þeirra sitja á sínum vanalega stað við útiborðið fyrir aftan skólann. Hann lætur sem hann sjái þau ekki en gjóar samt augunum á Sóldísi - hún er í ljósblárri úlpu og með bleikt gloss á vörunum. Hann heldur sig úti við girðinguna en þorir ekki að opna Raven's Claw appið ef þau skyldu líka vera með það opið. Þau ráðast líklega ekki á hann í raunveruleikanum en gætu gert það í leiknum. Ofbeldi og einelti hefur færst úr raunveruleikanum yfir í samfélagsmiðla og tölvuleiki eins og Raven's Claw. Lúðar eins og Arnaldur eru hvergi óhultir.

  Hann röltir lengra eftir girðingunni og kemur auga á Kingu, sem situr ein síns liðs á frosinni jörðinni með bakið upp að girðingunni og reykir í mestu makindum. Það er stanglega bannað að reykja á skólalóðini en hún virðist komast upp með það. Enginn þorir að skipta sér af Kingu Jedynak. Hann gengur hikandi til hennar. 

  „Hæ,“ segir Arnaldur.

  Kinga lítur upp. „Hæ.“

  „Má ég?“ Hann bendir á jörðina við hlið hennar.

  Hún yppir öxlum. „Auðvitað.“

  Arnaldur sest við hlið hennar en samt ekki alveg uppi við hana. Hann lítur á hana. Kinga starir út í loftið, á allt og ekkert. Hún virðist djúpt hugsi.

  „Ég er kominn með tréhús,“ segir hann. „Keypti kistu til að geyma dót í og setti upp þjófavarnarkerfið.“

  „Næs,“ segir Kinga. Hún slær ösku af sígarettunni.

  „Tröllið er mjög flott,“ segir hann.

  Kinga fær sér smók en segir ekki neitt. Hún er að hugsa um mömmu sína, sem er næstum aldrei heima og er farin að hegða sér undarlega. Hana grunar að hún sé að hitta einhvern mann. Sem hlaut að gerast einn daginn. En henni finnst tilhugsunin skrýtin, jafnvel óþægileg. Hún vonar að þessi ímyndaði elskhugi flytji ekki inn til þeirra, eða þau til hans.

  Elskhugi - oj!

(s. 86-88)

Fleira eftir sama höfund

Hótel Kalifornía

Lesa meira

Dyrnar á Svörtufjöllum

Lesa meira

Ódáðahraun

Lesa meira

Ísrael: Saga af manni

Lesa meira

Das Schiff

Lesa meira

Nero oceano

Lesa meira

Húsið

Lesa meira