Beint í efni

Hringurinn

Hringurinn
Höfundar
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Höfundar eru Mats Strandberg og Sara Bergmark Elfgren

Um bókina

Englafoss er fallegt bæjarnafn en smábærinn er dauðanum merktur. Hann er umkringdur skógum þar sem menn villast oft og hverfa. Nótt eina þegar tunglið er óeðlilega rautt draga óútskýrðir kraftar sex stúlkur sem eru nýnemar í menntaskóla inn í yfirgefinn skemmtigarð. Skólabróðir þeirra hefur nýlega fundist látinn. Allir halda að hann hafi framið sjálfsmorð. Nema þær sem þekkja sannleikann. Stúlkurnar eiga fátt sameiginlegt og hafa ekki hugmynd um hvað leiddi þær inn í niðurnídda garðinn. En frá þessari stundu er tilvistin í skólanum upp á líf og dauða. Þær verða að finna og sigra illt afl sem reynir að ná valdi á þeim. Þær verða að standa saman og berjast til að lifa af.

Úr bókinni

Anna-Karin er meðal þeirra síðustu sem fara út úr salnum. Hún hefur setið aftast, langt frá til að enginn taki eftir henni. Það var sérlega mikilvægt í dag því að hún ákvað að skilja Pipar eftir heima. Eða það var frekar Pipar sjálfur sem tók þá ákvörðun. Þegar hún tók hann upp þaut hann undir sófann og faldi sig þar til hún neyddist til að fara til að missa ekki af strætó.
   Það særði hana og hræddi.
   Anna-Karin hefur alltaf haft gott lag á dýrum. Þau elska hana. Þannig hefur það alltaf verið.
   En nú snýr veröldin öll upp og niður. Hún hugsar um Pipar. Um rödd mömmu sem bara hvarf og hefur ekki enn komið aftur. Um einkennilegu draumana og að hún hefur vaknað og fundið lyft af reyk í hárinu tvo morgna í röð. Fátið á sviðinu tengist þessu einhvern veginn.
   Hún gengur vélrænt niður tröppurnar og út á skólalóðina. Í gegnum glufu í mannmergðinni sér hún húsvörðinn ganga að fánastönginni. Í baksýn sér í rektorinn. Andlit hennar er stíft.
   Fáninn er hífður hægt upp í topp og síðan dreginn niður þar til hann er kyrr í hálfa stöng. Þar hangir hann niður.
   Þau standa í hóp í nokkrar mínútur, óviss hvað skuli gera næst.
   Nokkrir fara aftur að gráta en það er með hálfum huga eftir atburðina inni í hátíðarsalnum. Rektorinn segir eitthvað og þau sem standa næst fánastönginni fara að tínast inn í skólann. Nú bíða þeirra samtöl í kennslustofunum með kennurum og sálfræðingum. „Það er mikilvægt að opna fyrir allar tilfinningar þegar svona nokkuð gerist,“ sagði rektorinn í ræðunni. Líkt og það sé álíka auðvelt að sópa burtu óþægilegum tilfinningum og draslinu á skólalóðinni.
   Anna-Karin horfir á fánann.
   Aumingja Elías, hugsar hún. En hann átti að minnsta kosti nokkra vini sem voru eins og hann.
   Anna-Karin hefur aldrei átt vinahóp. Hún hefur aldrei kunnað að meta einhverja ákveðna tónlist eða einhverja ákveðna tísku. Það er ekkert sérstakt við hana á nokkurn hátt.
   „Þessi Linnéa tussa ...“
   Röddin hægra megin við hana er allt of kunnugleg. Hún lítur í áttina að henni og sér Erik Forslund. Við hlið hans standa Kevin Mansson og Robin Zetterqvist. Þeir sem réðust á Elías með skærin. Þeir sem Linnéa er nýbúin að fletta ofan af fyrir framan allan skólann.
   „Við ættum að sýna þessari helvítis lessu ...,“ hvæsir Robin.
   Hinir kinka kolli. Skyndilega finnur Anna-Karin reiðina flæða fram. Hún heldur áfram að stara á þá þar til Erik Forslund tekur eftir henni. Anna-Karin áttar sig á að þetta er í fyrsta skipti sem hún horfir í augun á Erik Forslund síðan þau voru í einum af fyrstu bekkjum grunnskólans. Þá vr hún ekki enn búin að læra að horfa niður hvar sem hún fór, að þannig spjaraði maður sig í lífinu.
   „Hvað ert þú að glápa, svitahóra?“ hvæsir hann.
   Það er eins og allt hatur síðustu ára hellist yfir hana. En nú snýr hún því ekki gegn sjálfri sér. H'un er ekki reið sjálfri sér því að hún er svo ljót, misheppnuð og klunnaleg og feit og ógeðsleg og ömurleg. Þess í stað er hún reið út í Erik. Hún hatar hann. Það er þægileg tilfinning. H'un vellur upp líkamann eins og kolsýra.
   MÍGÐU Á ÞIG!
   Og hún sér í augum Eriks að það gerist.

(s. 75-77) 

 

Fleira eftir sama höfund