Beint í efni

Hungur

Hungur
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Það er síðsumar í Reykjavík þegar lögreglan fær tilkynningu um dularfullt mannshvarf. Ungur maður frá Vestfjörðum sem ætlaði að tjalda í borgarlandinu er horfinn sporlaust. Hörður Grímsson rannsakar málið. Athygli hans beinist helst að grænu svæðum borgarinnar, meðal annars Elliðaárdalnum. Skógurinn í dalnum teygir úr sér á milli kvísla árinnar og er stærri og dularfyllri en hann lítur út fyrir að vera í fyrstu.

Nokkrum dögum síðar er tilkynnt um hrottalegt morð um hábjartan dag á heimili í nágrenni Elliðaárdals. Þar finnst húsmóðirin liggjandi í blóði sínu. Aðkoman er svo hroðaleg að hvorki Hörður né samstarfsfólk hans hefur séð annað eins. Til að bæta gráu ofan á svart óttast Hörður að málin tengist og að hryllingnum sé ekki lokið.

Klukkan tifar og einhvers staðar í skuggum borgarinnar leynist sjúk sál sem er drifin áfram af óseðjandi hungri.

Úr bókinni

   Hörður gengur lengra til norðurs, eftir malarslóða sem endar við annað hús ofan í dalnum, í skugga hárra trjáa. Það er eyðibýlið sem hann mundi eftir, enda tengist það sjö ára gamalli rannsókn. Húsið er tvílyft tréhús, klætt rauðmáluðu bárujárni sem er götótt af ryði. Rúðurnar á efri hæðinni eru brotnar en búið er að negla fyrir gluggana á þeirri neðri. Það er með ólíkindum að ekki sé búið að rífa húsið fyrir löngu. En kannski strandar það á einhverju stjórnsýslukjaftæði. Hörður virðir drungalegt húsið fyrir sér. Hver sem er kemst inn í það og þarna væri auðvelt að fela sig. Verður hann ekki að leita í því? Honum verður aftur hugsað til skammbyssunnar - honum liði betur með hana við höndina. Hann er ekki einu sinni með langa vasaljósið sem einnig er hægt að nota sem kylfu.
   Hörður ýtir við útidyrahurðinni með öðrum fætinum. Það ískrar í hjörunum um leið og dyrnar opnast. Fyrir innan þær er tóm forstofa og handan hennar dimmur geimur sem lyktar af fúa og öðrum óþverra. Hann gengur gegnum forstofuna, nemur staðar og leggur við hlustir á meðan augun venjast rökkrinu. Hann heyrir krafs í nagdýrum undir gólffjölunum. Hvort það eru mýs eða rottur veit hann ekki. Hann læðist um jarðhæðina og svipast um. Það brakar í trégólfinu, sem er þakið óhreinindum og drasli, allt frá ónýtum gaskveikjurum og beygluðum dósum yfir í fataræfla og skítugar dýnur. Húsið er augljóslega athvarf dópista og heimilislausra. En það virðist mannlaust þessa stundina.
   Allt í einu berst hljóð ofan af efri hæðinni. Það er eins og einhver klóri í gólfið beint fyrir ofan Hörð. Hárin rísa í hnakkanum á honum. Klórið er of kraftmikið til að geta verið krafs í litlu nagdýri. Upp á efri hæðina er tréstigi sem vantar nokkrar tröppur í og er með stóru gati í miðjunni. Hörður lítur upp um stigaopið. Hann sér þaksperrur í daufri birtunni sem berst inn um gluggana. Klórið heldur áfram.
   "Er einhver þarna uppi?" kallar Hörður. Klórið hættir en enginn svarar.

(s. 56-58)

Fleira eftir sama höfund

Nero oceano

Lesa meira

Noir Océan

Lesa meira

Noir Karma

Lesa meira

Húsið

Lesa meira

Úlfshjarta

Lesa meira
mörgæs með brostið hjarta

Mörgæs með brostið hjarta: Ástarsaga

Mörgæs með mannlegar tilfinningar, ástfangin en um leið full af kvíða, leitar að tilgangi lífsins
Lesa meira

Ísrael: Saga af manni

Lesa meira