Um þýðinguna
What is the What eftir Dave Eggers í þýðingu Rúnars Helga
Valentino Achak Deng er smástrákur þegar ráðist er á þorpið hans í Suður-Súdan og það lagt í rúst. Hann verður viðskila við fjölskyldu sína og þarf að ganga yfir eyðimörkina ásamt hundrðuum annarra drengja, alla leið til Eþíópíu og síðar Kenía þar sem hann dvelur í flóttamannabúðum í heilan áratug. Á leiðinni tglíma drengirnir við sult og sjúkdóma, auk þess sem þeir verða vitni að hroðalegum óhæfuverkum. Og sumir enda í ljónsgini.
Valentino er einn hinna Týndu drengja Suður-Súdans sem eru um síðir fluttir með loftbrú til Bandaríkjanna þar sem þeir hefja nýtt líf. Það er þó enginn dans á rósum og fyrr en varir mæta þeir erfiðleikum og ofbeldi sem er engu minna en á eyðimerkurgöngunni þegar verst lætur.
Úr Hvað er þetta hvað
Michael, þú hefur ekki kynnst myrkri fyrr en þú hefur séð myrkrið í Suður-Súdan. Það eru engar borgir í grenndinni, engin götuljós, engir vegir. Þegar ekki er tunglbjart platar maður sjálfan sig. Maður sér ýmislegt fyrir framan sig sem er ekki þar. Maður vill trúa því að maður sjái, en maður sér ekkert.
Eftir að hafa vaðið runnana klukkutímum saman sá ég roða í fjarska, eld. Ég skreiddist með erfiðismunum í áttina að honum. Ég var alveg örmagna. Það blæddi úr mér öllum og ég hafði ákveðið að jafnvel þótt þetta væri baggareldur mundi ég leyfa þeim að taka mig höndum. Ég yrði bundinn og fluttur norður og mér var orðið alveg sama. Það greiddist úr þykkninu undir mér og brátt kom ég á stíg. Ég reisti mig upp og hljóp í áttina að roðagulum logunum. Það var soghljóð í hálsinum á mér og mig verkjaði í rifbeinin og fæturnir emjuðu undan þyrnum og hörðum stígum. Ég hljóp hljóðlega, þakklátur fyrir þögn hinnar hörðu jarðar undir fótum mér, og nálgaðist eldinn. Ég hafði ekki fengið neitt að drekka frá því um morguninn en ég vissi að ég gæti beðið um vatn þegar ég kæmi að eldinum. Ég hægði á mér en var svo móður þar sem ég kom aðvífandi að ég heyrði ekki í svipunum og leðiurólunum og karlmönnunum sem þarna voru. Nú var ég svo nálægt að ég fann fnykinn af kameldýrunum þeirra. Þessir menn voru nálægt eldinum en spölkorn frá þeim sem gættu hans.
Ég hnipraði mig saman og heyrði þá að þeir töluðu arabísku. Ég féll á kné og fetaði mig eftir stígnum í von um að finna eldinn áður en þeir fyndu mig. En brátt komst ég að því að raddirnar komu frá þeim sem gættu eldsins. Raddirnar voru svo nálægt eldinum að þetta hlutu að vera murahaleenar.
- Hver er þar? var spurt. Röddin var svo nálæg að ég hrökk við.
Eitthvað hreyfðist beint fyrir ofan mig og nú sá ég þá, tvo menn á kameldýrum. Dýrin voru risastór og skyggðu á stjörnurnar. Mennirnir voru hvítklæddir og á baki annars þeirra sá ég móta fyrir skörðóttri byssu. Ég hélt niðri í mér andanum og gerði mig að snáki og fikraði mig aftur á bak, frá stígnum.
- Er þetta dinkastrákur? spurði ein röddin.
Ég hlustaði og mennirnir hlustuðu.
- Dinkastrákur eða kanína? spurði sama rödd.
Ég hélt áfram að skríða, spönn fyrir spönn, fæturnir þreifuðu fyrir sér að baki mér þangað til þeir rákust í sprekahrúgu sem skrjáfaði í.
- Bíddu! hvæsti ein röddin.
Ég nam staðar og mennirnir lögðu við hlustir. Ég lá kyrr á maganum, grafkyrr, og andaði ofan í jörðina. Mennirnir kunnu líka að hafa hægt um sig. Þeir stóðu þarna og hlustuðu og kameldýrin stóðu þarna og hlustuðu. Það var þögn í marga daga og nætur.
- Dinkastrákur! hvæsti hann.
Maðurinn talaði nú dinkamál.
- Dinkastrákur, komdu og fáðu þér vatn.
Ég hélt niðri í mér andanum.
- Er þetta dinkastelpa? sagði hinn.
- Komdu og fáðu þér vatn að drekka, sagði sá fyrri.
Ég lá þarna hreyfingarlaus í marga daga og nætur að því er virtist. Ég lá þarna og horfði á skuggamyndirnar af mönnunum og kameldýrunum. Eitt af kameldýrunum létti á sér á stiginn og við það fóru mennirnir að tala aftur, nú á arabísku. Stuttu seinna sýndu mennirnir á sér fararsnið. Þeir fóru hægt niður eftir stígnum en ég hélt kyrru fyrir. Eftir fáein skref stönsuðu þeir. Þeir höfðu búist við að ég færi af stað um leið og þeir, en ég lá kyrr á maganum og hélt niðrí í mér andanum og gróf andlitið í moldina.
Loks riðu mennirnir burt.
En nóttin vildi ekki taka enda.
(93-4)