Beint í efni

Hvernig ég kynntist fiskunum

Hvernig ég kynntist fiskunum
Höfundur
Ota Pavel
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um bókina

Jak jsem potkal ryby (1971) eftir Ota Pavel í íslenskri þýðingu Gyrðis Elíassonar.

Verkið leikur á mörkum skáldsagna- og smásagnagerðar og lýsir með ljúfsárum hætti veröld sem var í sveitahéröðum Tékkóslóvakíu, áður en síðari hemisstyrjöldin skall á og landið var hernumið af Þjóðverjum.

Hér segir af ævintýralegum veiðiferðum Poppers sölufulltrúa og Proseks ferjumanns, af vatnakörfum sem fóðraðir eru á maltkorni og dádýrshjörtum sem ruggað er í barnavögnum. En þegar stríðið brýst út, eru faðir og bræður hins unga sögumanns sendir í fangabúðir Þjóðverja. Og þá stendur upp á hann einan að færa björg í bú.

Úr Hvernig ég kynntist fiskunum

Frantisek Koralek, aðalforstjóri hjá Elektrolux, þar sem pabbi vann, var auðugur maður. Mánaðarlaun hans námu 30.000 tékkneskum krónum, hann átti stórhýsi í Orechovka, og keypti nýjan amerískan bíl á hverju ári. Hann átti engin börn en hann átti Frako-hesthúsið í Chuchle, fullbúið með stórfenglegnum gæðingum og enskum knöpum sem sátu þá.

Samkvæmt föður mínum, þá var Koralek meiriháttar skúrkur. Pabbi áleit þetta af því hann var sannfærður um að yfirmaður hans væri ekki verðugur eiginkonu sinnar, frú Irmu. Pabbi var sérlega hrifinn af frú Irmu. Hún var af gyðingaættum, og hafði ofurljóst hár, brjóst sem bunguðu út undir efnum sem hæfðu þeim vel, svo sem satíni eða silki, og hefðu komið tárunum út hjá myndhöggvara, og svo hafði hún stinnan og ávalan rass. Hún hreyfði sig af sama þokka og hryssurnar í hesthúsi eiginmannsins, og hún hafði yfirbragð gáfna og menntunar. Sá stíll sem yfir henni var hreif föður minn, sem aldrei vissi hvort hann átti að skrifa „i“ eða „y“ jafnvel í einföldustu orðum. Þetta vandamál hans byrjaði þegar í bernsku, þegar hann var rekinn úr skóla fyrir ýmis uppátæki, og síðasta uppreisn hans var í því fólgin að hann henti blekbyttu í Lúkas, kennarann sinn.

Mamma vissi um þennan „leynilega“ áhuga pabba á Irmu, en það plagaði hana aldrei mikið. Hún taldi alltaf að möguleikar hans væru álíka miklir og á því að klífa Everest. Eftir allt saman var hann með þrjá syni á sínu framfæri, átti hvorki hesta né amerískan kagga, og það eina sem hann kunni eitthvað í var fótbolti, box og fiskiveiðar. Ekkert af þessu gæti hrifið frú Irmu.

Fortíð pabba var líka vel þekkt. Áður en hann gekk til liðs við hið fræga sænska fyrirtæki Elektrolux, þá hafði hann selt svokölluð Tutankhamon slökkvitæki fyrir heimaframleiðanda. Það var á allra vitorði að nokkrar verksmiðjur höfðu brunnið til grunna meðan reksturinn var í blóma. Pabbi lét það einnig berast út hvernig við hefðum dregið fram lífið á þessum tíma, og þau tíðindi flugu sem fiskisaga um Prag. Við höfðum búið í þorpi í útjaðri skógarins nálægt Marienbad og höfðum borðað saltaða sveppi í ökll mál og heilnæma lauka án eggja og brauðs. En svo gerðist kraftaverkið. Frá þeirri stundu þegar herra Frantisek koralek mælti: „Jæja, við samþykkjum þig sem sölufulltrúa okkar!“ þá hafði gæfustjarna pabba þotið upp á við.

(41-3)

Fleira eftir sama höfund