Beint í efni

Konan sem í mér býr

Konan sem í mér býr
Höfundur
Britney Spears
Útgefandi
Ugla
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Sjálfsævisögur

Um bókina

Konan sem í mér býr er saga um frelsi, frægð, móðurhlutverkið, það að komast lífs af, trú og von. Í júní 2021 fylgdist allur heimurinn með Britney Spears í dómsal. Það hafði mikil áhrif þegar hún deildi rödd sinni – sínum sannleika – og það breytti lífshlaupi hennar og lífi ótal annarra. 
Bandaríski Grammy-verðlaunahafinn Britney Spears er einn vinsælasti og virtasti skemmtikraftur tónlistarsögunnar. Hún hefur selt yfir 100 milljón hljómplötur um víða veröld og árið 2021 var hún útnefnd af tímaritinu Time ein hinna 100 áhrifamestu í heiminum. Hún býr í Los Angeles í Kaliforníu-ríki.

Úr bókinni 

Meðan á sambandi okkar stóð kom nokkrum sinnum fyrir að ég var viss um að Justin héldi fram hjá. Ég leiddi það hjá mér, einkum vegna þess að ég var svo gagntekin og svo ástfangin, jafnvel þótt sorppressan gerði allt sem hún gat til að núa mér upp úr því. Þegar NSYNC fór til London árið 2000 náðu ljósmyndarar myndum af honum í bíl með einni af stelpunum úr All Saints. En ég sagði aldrei neitt. Á þeim tíma höfðum við bara verið saman í eitt ár eða svo. 

  Í annað skipti vorum við í Vegas og einn dansarinn minn, sem hafði hangið með honum, sagði mér að hann hefði verið að eltast við stelpu og sagt: „Já, gaur, ég nelgdi þessa í gærkvöldi.“ Ég vil ekki greina frá því hver það var vegna þess að hún er í rauninni mjög vinsæl og gift núna og á krakka. Ég vil ekki að henni líði illa út af þessu.

  Vinur minn hneykslaðist á þessu og hélt að Justin hefði bara sagt þetta vegna þess að hann hafi verið hátt uppi og þurft að monta sig. Orðrómur var í gangi um hann og ýmsar af dönsurunum og grúppíunum. Ég leiddi þetta allt hjá mér, en það var augljóst að hann svaf há öðrum. Þetta voru bara svona tilfelli þar sem maður veit þetta, en segir ekki neitt.

  Þannig að ég gerði það bara líka. Ekki oft - bara einu sinni, með Wade Robson. Við skelltum okkur út á lífið eitt kvöldið og fórum á spænskan bar. Við dönsuðum og dönsuðum og ég kelaði heilmikið við hann það kvöldið.

  Annars var ég trú Justin árum saman og leit ekki á neinn annan - með þessari einu undantekningu sem ég játaði fúsleg fyrir honum. Það kvöld þurrkaði ég bara út sem eitthvað, sem getur gerst þegar maður er jafnungur og við vorum. Við Justin gleymdum þessu bara og héldum áfram saman. Ég hélt að við yrðum saman til eilífðarnóns. Ég vonaði að svo yrði.

  Á ákveðnum tímapunkti þegar við Justin vorum að byrja saman varð ég ólétt eftir hann. Það var óvænt, en samt enginn harmleikur fyrir mig. Ég reiknaði alltaf með að við kæmum okkur upp fjölskyldu einn góðan veðurdag. Það mundi þá bara gerast miklu fyrr en ég átti von á. Auk þess var þetta búið og gert.  

En Justin var svo sannarlega ekki ánægður með þungunina. Hann sagði að við værum ekki reiðubúin til að veita barni viðtöku í líf okkar og að við værum bara allt of ung.

  Ég skildi það vel. Ég á við að ég skildi það að ákveðnu marki. Ef hann vildi ekki verða faðir fannst mér ég ekki eiga mikið val. Ég vildi ekki ýta honum út í eitthvað sem hann vildi ekki sjálfur. Samband okkar var allt of mikilvægt fyrir mig. Og ég er þess vegna viss um að einhverjir muni hata mig fyrir þetta, en ég féllst á að eignast ekki barnið.

  Þungunarrof var eitthvað sem ég hafði aldrei ímyndað mér að ég þyrfti að velja fyrir sjálfa mig, en út af aðstæðunum var þetta það sem við gerðum.

(s. 76-77)

  

Fleira eftir sama höfund