Um þýðinguna
Leikrit Henrik Ibsens í tveimur bindum, í þýðingu Einars Braga.
Úr fyrra bindi, Brúðuheimili
NÓRA: Í nótt ætla ég ekki að sofa.
HELMER: En elsku Nóra -
NÓRA lítur á úrið sitt: Klukkan er ekki svo margt. Sestu nú hér, Torvald; við eigum margt órætt. Hún sest öðrumegin við borðið.
HELMER: Nóra - hvað er að? Þessi harði svipur -
NÓRA: Fáðu þér sæti. Þetta verður langt. Ég á margt vantalað við þig.
HELMER sest á móti henni við borðið: Þú gerir mig kvíðafullan, Nóra. Og ég skil þig ekki.
NÓRA: Nei, það er verkurinn. Þú skilur mig ekki. Og ég hef aldrei skilið þig heldur - fyrren í kvöld. Nei, gríptu ekki framí fyrir mér. Þú skalt bara hlusta á það sem ég segi. Þetta er uppgjör, Torvald.
HELMER: Hvað áttu við með því?
NÓRA eftir stutta þögn: Finnst þér ekki eitt nýstárlegt nú þegar við sitjum hér?
HELMER: Hvað ætti það að vera?
NÓRA: Við höfum nú verið gift í átta ár. Hefurðu ekki tekið eftir að þetta er í fyrsta sinn sem við tvö, þú og ég, maður og kona, tölum alvarlega saman?
HELMER: Ja, alvarlega - hvað áttu við?
NÓRA: Í átta ár samfellt - já, lengur - alveg frá okkar fyrstu kynnum höfum við aldrei skipst á alvarlegu orði um alvarleg efni.
HELMER: Hefði ég sí og æ átt að innvígja þig í áhyggjur sem þú gast hvorteð er ekki borið með mér?
NÓRA: Ég er ekki að tala um áhyggjur. Ég segi að við höfum aldrei setið saman og reynt í alvöru að komast til botns í einu né neinu.
HELMER: En elsku Nóra mín, hefði það verið eitthvað við þitt hæfi?
NÓRA: Þarna kemur það. Þú hefur aldrei skilið mig. - Ég hef verið beitt miklum órétti, Torvald. Fyrst af pabba, síðan þér.
HELMER: Ha? Af okkur tveim - okkur tveim sem höfum elskað þig heitar en allir aðrir?
(s. 200-201)