Um þýðinguna
Barnabókin The Lion Boy eftir Zizou Corder í íslenskri þýðingu Guðrúnar Evu.
Zizou Corder er höfundarnafn rithöfundarins Louisa Young og tíu ára dóttur hennar Isabel Adomakoh Young.
Úr Ljónadrengnum
Charlie sneri sér aftur að ljóninu og augu þeirra mættust milli þykkra járnrimlanna í búrinu.
- Hvað er það? sagði hann.
- Þú verður að hjálpa okkur, sagði ljónið. - Ég verð að geta treyst þér. Ef þú svíkur okkur, þá ... ég veit það ekki. En þetta getur ekki gengið svona lengur. Þú sást hvað - (hér sagði hann nafn elsta ljónsins sem ekki er hægt að skrifa með bókstöfum. Hér eftir skrifa ég bara elsta ljónið í hvert sinn sem einhver segir nafn þess á kattamáli) hversu mjög er af elsta ljóninu dregið. Hversu þreytt það er og dapurt. Það var alltaf að leggja á ráðin og láta sig dreyma um flótta. En núna ... ég bara veit ekki hvað segja skal. Það er eins og það hafi gefist upp og mæðurnar (Charlie gerði ráð fyrir að það væri að tala um ljónynjurnar) fara að dæmi þess að mestu leyti. Þær eru svo vanar því að hlýða því og gæta þess að ergja það ekki að þær kunna ekki lengur að hugsa sjálfstætt. Elsína - sú yngsta - hún er hugrökk en hún er eiginlega bara ungi. Svo ég verð að gera eitthvað í málunum. Og þú verður að hjálpa til.
- Samþykkt, sagði Charlie. Hann spurði ekki einu sinni í hverju hjálpin ætti að vera fólgin eða til hvers ætlast væri af honum, hann samþykkti bara. Margir myndu segja að þarna hefði hann farið mjög heimskulega að ráði sínu. Það eru til óteljandi sögur um fólk sem lofar einhverju áður en það veit almennilega hvað það er og svo kemst það alltaf að því síðar að það lofaði einhverju skelfilegu og óhugsandi eins og að drepa vin sinn eða afsala sér konungsríkinu, en þá er of seint að hætta við. Sannleikurinn var sá að Charlie treysti ljóninu. Hann mundi etir augnaráði þess þegar það heyrði Charlie tala kattamál í fyrsta sinn. Hann treysti ljóninu og honum líkaði vel við það. Ef hann gæti myndi hann hjálpa því.
- Við þurfum að gera áætlun, sagði ljónið. - Og við þurfum að hafa manneskju með í ráðum, manneskju sem getur hjálpað okkur að komast í land. Við þurfum að blekkja Maccomo og Thibaudet majór. Við þurfum hjálp við að leynast á ferðalaginu. Við ætlum aftur heim til Afríku.
- Afríku! sagði Charlie uppnuminn.
- Ert þú frá Afríku? spurði ljónið.
- Já, eða réttara sagt, pabbi minn er frá Afríku. Strönd Vestur-Afríku.
- Við erum líka frá Vestur-Afríku! sagði ljónið. - Frá Marokkó, þar sem eyðimörkin og fjöllin mæta sjónum. Þangað ætlum við að fara.
- Pabbi er frá landi sem er ennþá sunnar, sagði Charlie. - Hann er frá Ghana.
- Við erum bræður, sagði ljónið. - Afrískir bræður. Þú talar sama tungumál og ég. Þú þarft ekki að fylgja okkur alla leið heim. Við hjálpumst að við að komast að því hvert er verið að fara með foreldra þína, við finnum einhverja leið sem hentar okkur öllum. Við getum líka hjálpað þér.
(s. 108-109)