Beint í efni

Ljós í ágúst

Ljós í ágúst
Höfundur
William Faulkner
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
1999
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Light in August eftir William Faulkner í þýðingu Rúnars Helga.

Úr Ljós í ágúst

Svo brast það allt á fyrir Joe með miklum dauðans gný þar sem hann stóð nú á miðju gólfinu með brotinn stólinn í hendinni og horfði niður á fóstra sinn. McEachern lá á bakinu. Það var friður yfir honum. Hann virtist sofa: þetta kringlótta höfuð, meira að segja óbuganlegur í hvíldarstöðu, jafnvel blóðið á enninu var friðsælt og rótt.

Joe andaði þungt. Hann heyrði í því og einhverju öðru, mjóu og skræku og langt í burtu. Hann virtist hlusta á það drykklanga stund áður en hann áttaði sig á að það var rödd, kvenmannsrödd. Hann leit upp og sá tvo menn halda henni þar sem hún barðist um, hárið hrunið fram, hvítt andlitið afmyndað og ljótt undir villimannslegum málningarslettum, munnurinn lítil skörðótt hola full af öskri. Kallar mig skækju! æpti hún og reyndi að slíta sig frá mönnunum sem héldu henni. Þessi gamli tíkarsonur! Sleppið mér! Sleppið mér! Svo hætti munnur hennar aftur að búa til orð og æpti bara; hún ólmaðist og ólátaðist, reyndi að bíta í hendurnar á mönnunum sem tuskuðust við hana.

Joe gekk til hennar, enn með brotinn stólinn í hendinni. Hin hnöppuðu sig saman við veggina, í klösum, og horfðu á hann: stúlkurnar í óþjálum upplituðum sokkum og háhæluðum skóm úr póstverslun; karlarnir, ungu mennirnir, í illa sniðnum og óþjálum fötum, einnig úr póstverslun, með harðar, illa farnar hendur og augu sem þegar báru vott um þá arfleifð að grúfa sig þolinmóður yfir endalaus plógför og hægfara múldýrslendar. Joe tók á rás, veifandi stólnum. Sleppið henni! sagði hann. Um leið hætti hún að berjast um og beindi bræði sinni að honum, öskrunum, eins og hún væri nú fyrst að taka eftir honum, átta sig á að hann var þarna líka.
Og þú! Þú komst með mig hingað. Bölvaði sveitadurgsbastarðurinn þinn. Bastarðurinn þinn! Þú ert tíkarsonur og hann líka. Sleppir honum á mig sem hef aldrei nokkurn tíma séð - Joe virtist ekki vera að hlaupa í neinn sérstakan og andlit hans var sallarólegt undir uppreiddum stólnum. Hinir hörfuðu undan konunni, slepptu henni, þó að hún héldi áfram að vinda handleggina eins og hún hefði ekki áttað sig á því.

Fleira eftir sama höfund

Sem ég lá fyrir dauðanum

Lesa meira

Griðastaður

Lesa meira