Beint í efni

Menntuð

Menntuð
Höfundar
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Höfundur er Tara Westover

Um bókina

Tara Westover ólst upp við undirbúning fyrir heimsendi, beið eftir að sólin myrkvaðist og máninn litaðist blóði. Á sumrin sauð hún niður ferskjur og á veturna safnaði hún neyðarbirgðum í þeirri von að þegar heimur manna liði undir lok myndu hún og fjölskylda hennar lifa af.

Hún átti ekki fæðingarvottorð, engin einkunnablöð því að hún hafði aldrei stigið fæti inn í skólastofu og engar sjúkraskýrslur þar sem faðir hennar vantreysti heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt öllum opinberum stofnunum var hún ekki til.

Þegar hún eltist varð faðir hennar sífellt öfgafyllri í skoðunum og bróðir hennar æ ofbeldisfyllri. Sextán ára gömul ákvað Tara að mennta sig sjálf.

Menntuð er saga stúlku sem berst fyrir að uppgötva sjálfa sig, saga um ákafa tryggð og sorgina sem fylgir því að skera á náin tengsl. Westover lýsir ótrúlegum uppvexti sínum af miklu næmi og innsæi og saga hennar varpar ljósi á það hvað menntun raunverulega er: tækifærið til að sjá lífið með nýjum augum og öðlast vilja til að breyta því.

Úr Menntuð

Tyler var farinn. Það voru nánast engin ummerki eftir hann í húsinu, fyrir utan eitt: Á hverju kvöldi, eftir kvöldmat, lokaði ég að mér inni í herbergi og dró gamla geisladiskaspilarann hans fram undan rúminu mínu. Ég hafði tekið skrifborðið hans inn til mín og meðan kórinn söng settist ég í stólinn hans og lærði, eins og ég hafði séð hann gera þúsund sinnum. Ég lærði hvorki sögu né stærðfræði, heldur kristin fræði.
  Ég las hina helgu bók mormónakirkjunnar tvisvar. Ég las Nýja testamentið, einu sinni hratt, svo aftur hægar og skrifaði glósur, bar saman tilvitnanir og skrifaði meira að segja stuttar ritgerðir um hugtök á borð við trú og fórnir. Enginn las þessar ritgerðir, ég skrifaði þær fyrir sjálfa mig eins og ég ímyndaði mér að Tyler hefði lært fyrir sjálfan sig. Næst fór ég í gegnum Gamla testamentið og svo las ég bækurnar hans pabba, sem voru aðallega söfn með ræðum, bréfum og dagbókum gömlu mormónaspámannanna. Þær voru skrifaðar á nítjándu aldar máli - stirðu, formlegu og nákvæmu - og til að byrja með skildi ég ekki neitt. Með tímanum aðlöguðust þó augu mín textanum og ég fór að kunna að meta þessi brot úr sögu fólksins mins; sögur af frumbyggjum, forfeðrum mínum, sem héldu út í óbyggðir Norður-Ameríku. Sögurnar voru lifandi en fyrirlestrarnir óhlutbundnir, fræðilegar ritgerðir um illskiljanleg heimspekileg málefni og ég eyddi mestum tíma í þessi óáþreifanlegu skrif.
  Eftir á að hyggja sé ég að í þessu var menntun mín fólgin, sú sem skipti máli: Þessir klukkutímar sem ég sat við skrifborð annars manns og reyndi að greina fínni blæbrigði mormónakenninga til að apa eftir bróður mínum sem yfirgaf mig. Ég þróaði með mér mjög mikilvægan hæfileika, þolinmæði til að lesa hluti sem ég skildi ekki enn til fulls.

(77-78)

 

Fleira eftir sama höfund