Beint í efni

Skuggadrengur

Skuggadrengur
Höfundar
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Höfundur er Carl-Johan Vallgren

Um bókina

Sumarið 1970 hverfur lítill drengur á lestrarstöð í Stokkhólmi. Ókunn kona leiðir hann í burtu og hann sést ekki framar. Áratugum síðar hverfur bróðir drengsins, Jóel Klingberg, á fullorðinsaldri. Eiginkona Jóels leitar aðstoðar hjá gömlum skólabróður hans, Danny Katz, sem er tungumálasnillingur með vafasama fortíð. Fljótlega kemur í ljós að hin valdamikla Klingberg-fjölskylda á sér mörg leyndarmál. Og þegar reynt er að bendla Danny Kantz við morð breytist rannsókn hans í baráttu fyrir eigin lífi. Skuggadrengur er saga um myrka kima mannsálarinnar, veröld þar sem dauðinn táknar ekki endilega endalokin.

Úr bókinni

Það tók Julin bara fáeina tíma að finna þau gögn sem lögreglan átti um hvarf Jóels Klingberg. Rannsókninni var formlega lokið tæpum sólarhring eftir að hún hófst. Það var aldrei lýst eftir honum. Það benti aldrei neitt til þess að brot hefði verið framið. Ekki var vitað til þess að mannræningjar hefðu haft samband við Klingberg-fjölskylduna. Hringt hafði verið á öll sjúkrahús en það hafði ekkert upp á sig. Þetta leit óneitanlega út eins og maðurinn hefði látið sig hverfa af fúsum og frjálsum vilja. Lögreglan hafði ekki haft neinar ástæður til að fara lengra með málið. Jóel hafði sent föðurbróður sínum, Pontusi Klingberg, forstjóra fjölskyldufyrirtækisins, skilaboð þar sem hann tilkynnti að hann ætlaði að hverfa á braut um óákveðinn tíma. Samkvæmt lögregluskýrslunni hafði það valdið talsverðri óánægju hjá stjórn fyrirtækisins, enda voru mikilvægir samningar í burðarliðnum og undir eðlilegum kringumstæðum hefði Jóel, yfirlögfræðingur fyrirtækisins, átt að vera viðstaddur undirritun samninganna.
   Hvað varðaði bílinn sem var lagt í bílastæðahúsinu hafði Klingberg greitt fyrir leyfi til að leggja um óákveðinn tíma. Bíllinn hafði fundist, lögreglan rannsakað hann og síðan hafði Angela Klingberg sótt hann. Gps-hnitin fylgdu með póstinum frá Julin. Þetta passaði við það sem Angela Klingberg hafði sagt, fyrir utan að Jóel hafði stoppað aftur við tennisvöllinn í Traneberg áður en hann hélt áfram inn í bæ og gufaði upp.
   Á meðan Katz renndi aftur yfir gögnin gældi hann við þá tilhugsun að Klingberg hefði langað að segja honum eitthvað, að þess vegna hefði hann setið í bílnum sínum í tvö hundruð metra fjarlægð frá heimili hans. En hvers vegna ætti svo að vera? Allt benti til þess að um tilviljun væri að ræða.
   Hvaða ástæðu gat manneskja haft fyrir því að láta sig hverfa? Að því gefnu að það væri rétt hjá Angelu Klingberg að rifrildi þeirra væri ekki ástæðan. Einhvers konar hótun? Hafði Klingberg orðið svo hræddur við eitthvað að hann lét sig hverfa? Eða var hann fíkniefnaneitandi eða fyrrverandi fíkill sem hafði dottið í það?

(s. 40-41)

 

Fleira eftir sama höfund