Um þýðinguna
La caverna de las ideas eftir José Carlos Somoza í þýðingu Hermanns.
Þegar ungur maður finnst látinn og illa útleikinn þykir enginn vafi leika á því að hann hafi orðið úlfum að bráð. En lærifaðir hans hefur grun um að annað og meira búi að baki þessum skelfilega dauðdaga og leitar á náðir ,,ráðgátumeistarans Heraklesar Pontórs. Hið sanna skal koma í dagsljósið.
Sögusviðið er Aþena til forna og þegar fleiri nemendur úr skóla Platóns falla í valinn með dularfullum hætti verður leitin að sannleikanum æ torsóttari.
Þýðandi verksins er gagntekinn af duldri merkingu textans og stendur hreint ekki á sama þegar tilteknar vísbendingar taka að beinast að honum sjálfum með stöðugt ógnvænlegri hætti...
Úr Skuggaleikjum
,,Það veit þrumuguðinn Seifur að ég hef ekki heyrt tvær manneskjur rífast svona nema eiginmenn við eiginkonur, sagði Emargos þegar heimspekingurinn var farinn. Í svartri sigð glottandi munns hans sást glitta í eina tönn sem enn lafði þar af þrjósku, oddhvöss eins og lítið horn.
,,Þú skalt ekki vera hissa, Emargos, ef við félagarnir endum á að gifta okkur, svaraði Herakles og var skemmt. ,,Við erum svo ólíkir að það eina sem tengir okkur er kærleikurinn. Þeir skelltu báðir góðlátlega upp úr. ,,Og nú, Emargos, ef þér er það ekki á móti skapi skulum við fá okkur ofurlítinn göngutúr á meðan ég segi þér hvers vegna ég bað þig að bíða ...
Þeir gengu um íþróttahöllina þar sem rústir lágu á víð og dreif eftir nýafstaðna tortímingu. Hér og þar gat að líta veggi með sprungum eftir heiftúðugar árásir, brotin húsgögn í haug með kastspjótum og kringlum; ægimikil fótspor voru á leikvöllunum og á gólfflísarnar hafði fallið múrhúð af veggjunum og myndað tröllaukin kalksteinsblóm á litinn eins og liljur. Undir sallanum sást glitta í hálfniðurgrafnar smákrukkur. Á einni þeirra var mynd af uppréttum höndum stúlku, lófarnir vissu upp eins og hún bæðist hjálpar eða væri að reyna að vara einhvern við yfirvofandi hættu. Rykský engdist um í loftinu.26
,,Heyrðu, Emargos, sagði Herakles þegar þeir höfðu lokið samtalinu. ,,Hvernig get ég borgað þér þennan greiða?
,,Með því að borga mér hann, svaraði sá gamli. Þeir hlógu aftur.
,,Eitt í viðbót, kæri Emargos. Ég tók eftir að á hillu Eneosar, vinar nemanda þíns, er lítið búr með fugli í.Þetta er spörfugl, dæmigerð gjöf ástkonu til ástmanns síns. Veistu hver ástkona Eneosar er?
,,Við Föbos Appolló! Um Eneos veit ég ekkert en Antisos fékk sambærilega gjöf og ég get sagt þér hver gefandinn var, það var myndhöggvarinn og skáldið Menekmos, sem gengur með grasið í skónum á eftir honum! Emargos tók í kufl Heraklesar og lækkaði röddina. ,,Antisos sagði mér þetta fyrir nokkru og lét mig sverja við guðina að segja engum frá ...
Herakles varð hugsi eitt andartak.
,,Menekmos ... Einmitt, ég sá þann sérlundaða listamann síðast í jarðarför Tramakosar og man að nærvera hans kom mér á óvart. Svo að Menekmos gaf Antisosi lítinn spörfugl ...
,,Og ertu hissa á því? Við heiðblá augu Aþenu, ég myndi gefa þessum íðilfagra Alkíbíadesi með gullna hárið heilt hreiður, þótt mér yrði það ekki til neins gagns þar sem ég er þræll og kominn á þennan aldur!
,,Einmitt, Emargos. Skyndilega var Herakles mun glaðlegri í fasi. ,,Nú verð ég að fara. En gerðu það sem ég sagði þér að gera ...
,,Ef þú heldur áfram að borga mér eins og hingað til, Herakles Pontór, verða fyrirmæli þín líkust því að segja sólinni að rísa á hverjum morgni.
______________
26 Höfundurinn hefur gaman af að leika sér að lesendum sínum. Hér höfum við hana, dulbúna en fullkomlega þekkjanlega, þetta er sönnun þess að ég hafði á réttu að standa: ,,Stúlkan með liljuna er önnur afaar mikilvæg eidesísk mynd í verkinu! Ég veit ekki hvað hún merkir en hún er til staðar (svo ekki verður um villst: takið eftir hversu nálægt orðin ,,á litinn eins og liljur eru ítarlegri lýsingu á handahreyfingu þessarar ,,stúlku sem nú er teiknuð á hálfniðurgrafna krukku). Ég verð að viðurkenna að ég fékk tár í augun af geðshræringu við þennan fund. Ég gerði hlé á þýðingunni og fór heim til Elio. Ég nefndi við hann möguleikann á að nálgast frumhandrit Skuggaleikja. Hann ráðlagði mér að tala við Hektor útgáfustjóra. Hann hlýtur að hafa orðið var við eitthvað í augunum á mér því hann spurði hvað amaði að mér.
,,Það er stúlka í textanum sem hrópar á hjálp, sagði ég.
,,Og ætlar þú að bjarga henni? spurði hann háðskur. (Aths. þýð.)
(81-3)