Beint í efni

Sólar saga

Sólar saga
Höfundur
Sigurbjörg Þrastardóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2002
Flokkur
Skáldsögur


Af bókarkápu:



Ung íslensk kona verður fyrir hrottafenginni líkamsárás í fegurstu borg Ítalíu þar sem hún dvelur við nám. Í stað þess að flýja heim í faðm ástvina sinna einsetur hún sér að reyna að ná aftur áttum - og um leið sáttum - í landinu hlýja. En hvernig á hún að bera sig að? Hvert eiga sáttaumleitanir hennar að beinast og hverjum á hún að fyrirgefa? Hún veit ekki hverjir árásarmennirnir eru eða hvar þeirra er að leita. Með nesti og nýtt hugrekki leggur hún af stað í ferðalag um borgina og notar eigin aðferðir til þess að byggja upp veröld sína að nýju.



Úr Sólar sögu:



Ég þegi alltaf á ferðalögum, ég segi aldrei neitt og þegar þeir spyrja í flugstöðvunum hvort ég hafi látið sjálf ofan í töskurnar svara ég ekki heldur horfi í augun á þeim og hugsa:

 - Ef aðrir voguðu sér nærri þegar ég er að pakka niður yrðu þeir hinir sömu ekki til frásagnar, ég myndi sneiða þá í fernt og pakka þeim í jafn margar hliðartöskur sem ég tæki með mér í handfarangur því það fær enginn að vita hvað ég tek með mér í ferðalög; gamla áttavita, appelsínur og dagatal gufuskipafélags sem prentar landslagsmyndir á breiddina.



Ég er vön að taka appelsínur með mér í flugferðir, ekki endilega í gönguferðir. Og þó, ég hef aldrei farið í svona langa göngu áður og tók bara það sem ég átti til, ferskjur og geitaost og marmarakökuna frá Margheritu. Í ísskápnum voru að vísu sæmilegar appelsínur en ég skemmdi þær áður en ég kom mér af stað, dagana sem ég lá í rúminu. Ég vatt börkinn af og fleygði yfir öxlina til þess að athuga hvort það myndi færa mér eitthver skilaboð, kannski um hvert ég ætti að snúa mér.

 Systur mínar trúa því að appelsínur séu nokkurs konar véfréttir, þær halda því fram að bókstafurinn sem börkurinn myndar þegar hann lendir á gólfinu vísi beinustu leið á mannsefni. Ég rifjaði þetta upp í rúminu mínu og strípaði átta appelsínur á jafn mörgum dögum, leyfði aldinkjötinu að liggja þangað til það rotnaði en fór aldrei fram úr til þess að ráða í stafina. Mér var of heitt eða of kalt. Yfir rúminu hékk stóra dagatalið og ég horfði stundum á það, ágústmyndin í ár er af lygnu stöðuvatni og hangir eflaust ennþá á veggnum. Ég skildi margt eftir á fjórðu hæðinni.

 

Einu sinni kom mynd af þorpinu mínu heima á svona dagatali. Myndin var tekin ofan úr hlíð og út á hafið okkar sem einhverra hluta vegna er alltaf slétt á prenti. Mamma sleit myndina úr og gaf mér, sagði að ég gæti haft hana með og sýnt vinum mínum í útlöndum. Síðan eru liðin nokkur ár en ég hef engum sýnt þessa mynd. Ef einhver spyr um landslagið heima fæ ég að teikna á næstu servíettu, ég teikna fjögur eða fimm hús og segi:

 - Við erum mjög fá.



(s. 18 - 19)


Fleira eftir sama höfund

Griðastaðir ljóðsins í Reykjavík

Lesa meira

Túlípanafallhlífar

Lesa meira

Hnattflug

Lesa meira

Verso Dove 13 (ljóð)

Lesa meira

Blálogaland

Lesa meira

To Bleed Straight

Lesa meira

Ljóð í Moord liederen

Lesa meira

Fackelzüge: Ein Liebeslied

Lesa meira

Ljóð í Action Poétique

Lesa meira