Beint í efni

Steindrekinn

Steindrekinn
Höfundur
Andrew Davidsson
Útgefandi
Jentas
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan The Gargoyle (2008) eftir Andrew Davidsson í íslenskri þýðingu Sölva Björns Sigurðssonar.

Á myrkum vegi um miðja nótt hrapar bifreið í gljúfur. Illa brenndur sleppur ökumaðurinn lifandi frá slysinu. Hann þolir óbærilegar kvalir og sársaukafulla meðferð á sjúkrahúsinu í þeirri einu von að verða nægilega hraustur til að fremja sjálfsmorð.

Þá birtist hin leyndardómsfulla Marianne Engel myndhöggvari. Hún fullyrðir að þau séu elskendur frá fyrra lífi, í Þýskalandi á miðöldum. Hann málaliði og leiguþý og hún skrifari og nunna í klaustrinu Engelthal.

Marianne segir ævintýraríkar sögur frá fyrra lífi þeirra, m.a. frá Íslandi og Japan. Því meira sem þær fléttast saman, sljóvgast ruddaskapur hans og vantrú - brátt neyðist hann til að trúa hinu ótrúlega.

Höfundurinn, Andrew Davidson er frá Kanada en af íslenskum ættum. Hann lærði enskar bókmenntir við University of British Columbia í Vancouver, býr nú í Manitoba en hefur dvalið langdvölum í Japan. Steindrekinn er fyrsta bók hans.

Úr Steindrekanum

Hún birtist í gættinni á brunadeildinni, klædd ljósgrænum spítalaslopp, með þessi óræðu augu og þetta berserkjahár, og ég beið eftir stununni sem ósjálfrátt barst frá öllum í fyrsta sinn sem þeir sáu mig. Ég beið þess að hún tæki fyrir munn sér af reiðarslaginu og ótta. Hún olli mér vonbrigðum með því að brosa bara.
„Þú hefur brennst. Aftur.
Að jafnaði er það regla mín að bregðast ekki við stórundarlegum staðhæfingum ókunnugra en í þetta skiptið var ástæðan í fullri hreinskilni sú að ég vildi ekki að hún þyrfti að hlusta á stíflaða klósettið sem rödd mín var. Hálsinn á mér greri en eyrað (það sem virkaði enn) var enn ekki vant því hversu gæðin höfðu minnkað. Ég vildi aðeins að hún heyrði röddina sem ég hafði haft áður, þá sem gat lokkað konu upp í rúm.
Beint ofan í þögn mína tók hún aftur til máls. „Þetta er í þriðja sinn sem þú brennist.
Ég beit á jaxlinn og leiðrétti hana: „Einu sinni.
Svipbrigði hennar lýstu fáti. „Kannski ertu ekki þú.
Hún kom nær rúminu mínu án þess að rjúfa augnsambandið og dró þykku plastgardínurnar fyrir til að tryggja okkur næði. Hún hallaði sér fram svo aðeins nokkrir þumlungar skildu að andlit okkar og gaumgæfði mig í framan. Enginn hafði nokkru sinni litið svona á mig, ekki fyrir brunann og allra síst eftir hann. Undir augum hennar, sem dönsuðu svo á milli bláa og græna litarins, voru dökkir baugar, eins og hún hefði ekki sofið svo vikum skipti. Þegar varir hennar snertu næstum mínar hvíslaði hún einu orði: „Engelthal.
(s. 57-58)

Fleira eftir sama höfund