Myndhöfundur er Blær Guðmundsdóttir
Um bókina
Bíddu ha?
Sónarmynd… í símanum hennar ömmu?
GÆTU HLUTIRNIR MÖGULEGA ORÐIÐ EITTHVAÐ VERRI?
Nýja stelpan í bekknum er búin að stela bestu vinkonu Þórdísar. Staða hennar sem eina stelpan í stórfjölskyldunni er kannski í hættu. Þórdís vonar að þetta séu óþarfa áhyggjur; að hún haldi stöðu sinni í fjölskyldunni og nái að endurheimta bestu vinkonu sína.
Hún þráir ekkert heitar en að allt verði eins og áður.
Úr bókinni
Ég hringdi í Sunnevu og spurði hvort hún væri ekki til í smá búðarölt. Hún er jafn ævintýragjörn og ég og elskar því allt sem er nýtt og spennandi. Ég er að vísu aðeins fastari fyrir og vil halda í hefðir og venjur en ef Sunneva á í hlut er ég alltaf til í ævintýri. Hefði ég hringt og spurt hvort hún vildi koma í fallhlífarstökk hefði hún hiklaust svarað því játandi. Þess vegna brá mér ekki vitund þegar hún samþykkti að koma með mér í bæinn. Við fengum far með mömmu, sem var að fara að vinna í DÍS. Ég hafði sagt Sunnevu að ég þyrfti að segja henni leyndarmál en hóf ekki mál mitt fyrr en mamma var farin inn í búðina og við komnar í örugga fjarlægð.
Við gengum eftir fámennum og þröngum gangstíg. Sunneva var orðin óþolinmóð en ég varð að vera viss um að enginn myndi heyra. Kærði mig ekki um að koma af stað einhverju slúðri um mína eigin móður.
Kaffihúsið var hinn fullkomni staður fyrir þennan háleynilega fund. Við deildum súkkulaðibitaköku og stilltum matseðlinum upp eins og vegg svo enginn sæi okkur. Sunneva beið eftirvæntingarfull eftir fréttunum á meðan hún nartaði í kökuna eins og hamstur.
Ég dró andann djúpt og byrjaði að útskýra án þess að undanskilja nein smáatriði. Ég þræddi mig hægt í gegnum atburðarásina og kastaði fram möguleikum sem voru mislíklegir. Greyið Sunneva hafði ekki átt von á svona svakalegum fréttum og sat bara og gapti. Munnurinn á henni var galopinn svo ég gat nánast fylgst með ferðalagi kökubitans niður í magann.
(s. 33-34)