Beint í efni

Sumargestir

Sumargestir
Höfundur
Maxím Gorkí
Útgefandi
Frú Emilía
Staður
Reykjavík
Ár
1989
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Sumargestir eftir Maxím Gorkí. Árni Bergmann þýddi úr rússnesku. Leikgerð Peters Stein og Botho Strauss.

Úr Sumargestum

(VARVARA sest við hlið MARÍU LVOVNU á hengirúmið.)

MARÍA LVOVNA: Varja mín, komdu hérna. VARVARA: Hvað er að? Hefur hann gert þér eitthvað?
MARÍA LVOVNA: Nei... það er að segja, jú - gert mér? Ænei,... ég veit það ekki.
VARVARA: Segðu mér: hvað hefur komið fyrir?
MARÍA LVOVNA: Hann sagði mér... Hann sagðist elska mig. Mig! Ég er ekki ung stúlka, ég er bráðum gráhærð... Sér hann það ekki?... Dóttir mín verður fimmtán ára í október, drottinn minn...
VARVARA: Mér þykir vænt um þessar litlu hrukkur undir augunum á þér. Þú ert greind og falleg kona. Og ég dáist að þér.
MARÍA LVOVNA: Ég er rétt eins og allir aðrir, ég er líka aumkunarverð manneskja. Ég er hrædd, ég er svo skelfilega hrædd...
VARVARA: Við hvað?
MARÍA LVOVNA: Ég elska hann... Ekki hlæja að mér... Varja, ég elska hann. Ég hefi ekki elskað neinn áður. Hjónaband mitt var kvöl frá upphafi til enda... Og nú - ég skammast mín fyrir að viðurkenna það - nú langar mig svo mikið til að kynnast blíðu, sterkri ástríðu, já en ég veit, það er of seint, það er hlægilegt á mínum aldri! Hjálpaðu mér! Segðu honum að honum skjátlist. Ég vil ekki neinar auðmýkingar. Ég hef þjáðst nóg ég vil ekki meir...
VARVARA: Elskan mín, ég skil þig ekki - ef að þú elskar hann... þú þarft ekki að vera hrædd við neitt.
MARÍA LVOVNA: En hann er svo skelfilega ungur. Eftir árið verður hann búinn að fá nóg af mér og lætur mig fara.
VARVARA: Nei. Vlas hefur þörf fyrir þig. Þú ein getur hjálpað honum. Þú getur gert úr honum mann, mann sem gerir gagn. Þið getið unnið saman.
MARÍA LVOVNA: Æ, Varja, hvað ertu að reyna að telja mér trú um? Eins og allt hringsnúist ekki nú þegar í hausnum á mér.
VARVARA: Við erum öll of varkár og huglaus. Alltaf erum við hikandi, hrædd við óvissa framtíð... Ég veit ekki vel hvað ég er að fara... Kannski hefi ég engan rétt til að tala svona við þig. Ég er ekki annað er heimsk og feit fluga sem langar út í frelsið en rekur sig alltaf á gluggarúðuna. ... Mikið vildi ég vera nálægt þér þegar þú ert hamingjusöm.

(VARVARA gengur burt frá MARÍU LVOVNU.)

(s. 51-2)

Fleira eftir sama höfund