Beint í efni

Svartigaldur

Svartigaldur
Höfundur
Stefán Máni
Útgefandi
Sögur útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Þegar alþingismaður er stunginn til bana á Austurvelli snýst tilveran á haus. Það sem í upphafi virðist vera einfalt morðmál breytist smám saman í óreiðukennda martröð sem engan endi ætlar að taka.

Ill öfl virðast vera á sveimi, og enn á ný er sjómannssonurinn og efasemdamaðurinn Hörður Grímsson flæktur í atburðarrás sem enginn botnar neitt í og ekkert virðist geta stöðvað. Ótti og upplausn gegnsýrir samfélagið, það hriktir í stoðum lýðræðisins og almenningur krefst aðgerða.

En þegar harðnar á dalnum stíga harðjaxlar fram.

Úr bókinni

  Guðmundur Vífill Marínósson

  Betur þekktur sem Mummi litli, dópsali og smáglæpamaður. Hann gefur upp lögheimili á Baldursgötu. Það var þar sem hann fannst, í galtómri risíbúð. Hangandi í snöru sem var brugðið yfir loftbita. Á eldhúsbekknum var vegabréfið hans og flugmiði til London. Undarleg aðkoma.

  Hörður skrifar nafn Mumma á autt A4-blað, síðan lokar hann skýrslunni og opnar Löke, gagnagrunn lögreglunnar. Hann slær inn kennitöluna sína og aðgangsorð, síðan slær hann kennitölu Mumma litla í tóma gluggann sem birtist.

  Mummi heitinn var með nokkrar kærur á bakinu, flestar frekar ómerkilegar, allt niður í umferðarlagabrot. Nýjasta kæran er vegna hústöku á Vatnsstíg fyrir einu og hálfu ári. Tveimur vikum áður en hann hengdi sig var hann dæmdur til greiðslu sektar og skaðabóta. Mummi hafði þrisvar fengið dóm, þar af tvo fangelsisdóma, en hann hafði bara setið einu sinni inni, fyrir vörslu og sölu fíkniefna. Fyrri dómurinn var skilorðsbundinn. 

  Hörður punktar nokkur atriði hjá sér, síðan skrollar hann neðar. Mummi hafði einu sinni lagt sjálfur inn kæru. Það var fyrir þrettán mánuðum. Þá kærði hann Ingimar Jósefsson, prest á eftirlaunum, fyrir ítrekuð kynferðisbrot. Brotin áttu að hafa verið framin í sumarbúðum KFUM í Vatnaskógi þegar Mummi var ellefu og tólf ára. Ingimar þessi varð sjötíu og fimm ára fyrir mánuði. Hann var yfirheyrður en málið síðan látið niður falla.

  „Strákgreyið,“, tautar Hörður um leið og hann skrifar nafn prestsins á blaðið.

  Hann slær kennitölu Ingimars inn í Löke. Gamli presturinn er með þrjá kærur á bakinu og einn dóm. Fyrir fjórum árum kærði ungur karlmaður hann fyrir kynferðisbrot. Brotið var framið á heimili Ingimars í Laugarneshverfinu. Ingimar var þá starfandi sem aðstoðarprestur í Langholtskirkju. Hann játaði og fékk skilorðsbundinnn dóm, þrjá mánuði. Hinar tvær kærurnar eru þrettán mánaða gamlar, eins og kæran hans Mumma heitins, og kæruefnið það sama. Kynferðisbrot gegn ungum drengjum í sumarbúðum KFUM í Vatnaskógi. Ingimar var þar á launum hjá Kristilegu félagi ungra manna sem gæslumaður. Brotin töldust bæði ósönnuð og fyrnd.

  „Helvítis ógeð.“ Hörður lokar Löke og opnar netvafrann. Hann prófar að gúgla prestinn en lítið sem ekkert kemur út úr því. Þá prófar hann timarit.is. Upp koma nokkrar niðurstöður sem flestar tengjast Kirkjuritinu. Hann finnur þó einn hlekk sem tengist sjötugsafmæli prestsins, sem hélt upp á áfangann á Flórída með sínum nánustu, samkvæmt fréttinni sem birtist í Morgunblaðinu undir liðnum Árnað heilla. Fyrirsögnin er: „Hola í höggi ef Guð lofar.“ Presturinn ætlar að spila golf á afmælisdaginn, ásamt systursyni sínum sem hann segir bráðefnilegan í sportinu. Á myndinni sem fylgir fréttinni er mynd af þeim félögum, Ingimar presti og Gísla frænda hans, sem er um tvítugt. 

  „Frábært,“ muldrar Hörður. Hann lokar fréttinni af golfglaða prestinum og slær nafn Mumma litla inn í Google. Aðeins ein mynd dúkkar upp í leitinni. Það er passamynd af Mumma þegar hann var rúmlega fimmtán ára. Þá var lýst eftir honum eftir að hann strauk frá vistheimili fyrir vandræðaunglinga, ásamt félaga sínum. Myndin er af ungum dreng sem er alls ekki ómyndarlegur en svo ráðvilltur til augnanna og þunglyndislegur á svip að Hörður getur ekki annað en fundið til með honum.

  Sá sem flúði með Mumma er líka nafngreindur. Myndarlegur piltur með ljósa lokka.

  „Áskell Tyrfingsson,“ kallar Hörður. „Er það ekki hann Seli, dópsalinn sem bjó í Stórholtinu?“

  „Það stemmir,“ segir Vigfús. 

  „Þeir flúðu einu sinni saman af vistheimili, hann og Mummi litli,“ segir Hörður.

  „Stemmir.“

  „Hvarf hann ekki hann Seli?“ spyr Hörður. „Var ekki lýst eftir honum? Hann fannst aldrei, var það nokkuð?“

  „Nei.“

  „Var ekki talað um að hann hefði verið drepinn?“ kallar Hörður. „Út af dópskuld? Skuldaði hann ekki SS-bræðrunum pening? Ég heyrði það.“ 

  „Það var bara kjaftasaga,“ kallar Vigfús til baka. „Seli er í Suður-Ameríku. Í Perú eða Kólumbíu. Hann er stórtækur þar. Valdamikill kókdíler. Fer huld höfði. Búinn að breyta um nafn og allt.“

  „Er það virkilega?“ spyr Hörður.

  „Jamm,“ segir Vigfús.

  „Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt,“ tautar Hörður. Jæja. Ætti hann ekki að ljúka við fjárans skýrsluna? Hann nennir því ekki í augnablikinu. Hann brýtur saman blaðið með punktunum og stingur því í brjóstvasann á skyrtunni.

(s.49-51)

Fleira eftir sama höfund

Hótel Kalifornía

Lesa meira

Dyrnar á Svörtufjöllum

Lesa meira

Ódáðahraun

Lesa meira

Ísrael: Saga af manni

Lesa meira

Das Schiff

Lesa meira

Nero oceano

Lesa meira

Húsið

Lesa meira