Úr Svipum dagsins, og nótt:
Skyndilega verður stormur á hafinu. Eirðarleysi farþeganna er rofið af alvöru sjóveikinnar. Stormurinn rífur upp hafið af svefni, hendir skýjunum á fleygiferð og kastar til fuglunum og öðru lauslegu ef eitthvað væri; og er búinn að espa hafið svo upp að það rís líkt og til þess að ná taki á himninum og keyra hann undir sig, verða sjálft ofan á.
Á milli er skipið að reyna að skjóta sér undan þeim punktum þar sem heiftin mætist hafst og vinds. Það siglir upp á öldu sem hættir að halda áfram upp í himininn, og í staðinn fyrir brekkuna upp verður gat, stefnið komið upp úr sjónum einsog hnefaleikari sem missir marks og er næstum dottinn; svo skrunsar það niður í djúpan dal; og allt í kring eru fjöll hafsins að springa.
Fuglarnir snúa á vindinn. Þeir breiða vængina og láta hann bera sig, bregða sér úr greipum hans, láta sig hrapa niður að öldunni og stöðva sig rétt utan í vaxandi öldu með útbreidda vængi og glennta fætur líkt og maður í fallhlíf að nema land. Síðan setjast þeir kannski og eru þá umskiptingar, þá eru þeir orðnir allt annað dýr en þessi hinn sem hefur fengið þá bóklegu einkunn að hann væri stoltur og frjáls.
En það rifjast upp fyrir þeim, þeir rífa sig upp úr rólegheitunum á þessu æsta hafi, hefjast upp í stormsins veldi; svífa þar forsögulegar skonnortur vindsins, krussvenda, hrapa; hefjast aftur meðan vindurinn skeytir skapi á því að tæta reyk úr skipsstrompinum og gera þennan útfjarandi slóða að slitrum sem fara holt og bolt úr í upplausnina.
Farþeginn stígur í vinstri fótinn en hafið veltir skipinu svo þunginn lendir á hinum óviðbúna hægri fæti. Hann hrökklast út að vegg einsog stirður og feitur maður í tennisleik við unga stúlku.
Æ þessar fortöpuðu áttalausu sálir borgarinnar sviptar sinni þrælkandi vanakeðju um borð í skipi. Öldurnar hefja skipið upp á hæðir sínar, velta og varpa því ofan í djúpar gjár. Þessar sálir tómar og þrúgaðar af því að eignast tíma, nógan tíma, sitjandi í örvæntandi leit að orðum og setningum sem veita mættu gálgafrest í samræðum. Hvað má leiða að marki?
Og matborðin: þar hverfa tækifærin óuppgötvuð; þar er ekki hægt að lóna og dunda við að raða í sig gnægtum matarins. Nei, þá verður skyndilega aftur tíminn hákarlanna.
Nú keppast farþegarnir við eins og ófreskjur að slíta bráð á milli sín. Menn hamast við að ryðja í sig matnum í ákafa, eins og þeir væru kannski að verða of seinir á vaktina.
Og aftur byrjar áþjánin undir fargi tímaleysisins: einsog ruglaðir aflraunamenn spenni alla vöðva undir þeim ballón sem er engin byrði, á enga þyngd.
(7-8)